Keppast um að lýsa ábyrgð á árás

Gríðarleg öryggisgæsla var á leiknum.
Gríðarleg öryggisgæsla var á leiknum. AFP

Þýskir saksóknarar rannsaka nú bréf frá öfgasamtökum til hægri sem hafa lýst ábyrgð á sprengjutilræði á knattspyrnulið Borussia Dortmund. Þetta eru þriðju samtökin sem lýsa sprengjutilræðinu á hendur sér. Þrjár sprengjur sprungu við rútu liðsins skömmu eftir að hún lagði af stað í leik gegn Mónakó.

Spænski leikmaðurinn Marc Bartra særðist í árásinni en liðið var að fara að keppa á móti Mónakó í meistaradeild Evrópu þegar árásin var gerð á þriðjudag.

Í frétt Tagesspiegel kemur fram að dagblaðinu hafi borist bréf frá öfga hægrimönnum sem berjast gegn fjölmenningu og lýsa þau ábyrgð á árásinni og hóta því að fremja annað tilræði.

Frauke Koehler, talsmaður ríkissaksóknara, segir að starfsmenn embættisins séu að rannsaka bréfið en ekki liggi fyrir hver beri raunverulega ábyrgð.

Meðal annars fundust bréf á vettvangi þar sem því var haldið fram að íslamistar bæru ábyrgð en yfirvöld efast um að það sé rétt. Íraki var handtekinn grunaður um að tengjast íslamistum öfgamönnum en hann hefur verið látinn laus þar sem ljóst er að hann tengist árásinni ekki á nokkurn hátt. 

Eins hafa öfga-vinstrimenn lýst ábyrgð í bréfi á netinu en saksóknarar efast einnig um að þeir tengist tilræðinu. 

Leik liðanna var frestað um sólarhring en Dortmund tapaði síðan leiknum gegn Mónakó, 2-3.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert