Handtóku meintan skipuleggjanda árásarinnar

Akbarjon Djalilov er grunaður um að hafa sprengt sig í …
Akbarjon Djalilov er grunaður um að hafa sprengt sig í loft upp í neðanjarðarlest í St. Pétursborg. Azimov á hinsvegar að hafa skipulagt árásina. AFP

Rússar hafa nú handtekið mann sem er grunaður um að hafa skipulagt sprengjuárás á neðanjarðarlestarkerfi St. Pétursborgar í Rússlandi í síðasta mánuði. 14 manns létu lífið og tugir særðust í árásinni. 

Maðurinn sem var handtekinn heitir Abror Azimov og er sagður frá Mið-Asíu. Hann var handtekinn í dag í Odintsovo, úthverfi Moskvu. Hann er nú í yfirheyrslum samkvæmt tilkynningu frá FSB, öryggislögreglu Rússlands en hann er sagður fæddur árið 1990.

Sá sem er grunaður um að hafa sprengt sig upp í lestinni í St. Pétursborg hét Akbarjon Djalilov en hann var 22 ára. Talið er að hann hafi verið rússneskur ríkisborgari, fæddur í Kirgistan.

FSB segir að Azimov hafi þjálfað Djalilov til þess að sprengja sig í loft upp í lestinni.

Átta manns höfðu verið handteknir vegna málsins áður en að sögn yfirmanns FSB, Alexander Bortnikov eru þeir allir frá Mið-Asíu.

Árásin hefur vakið  spurningar um öryggisástandið í landinu en Rússar munu halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu á næsta ári.

Eftir árásina fundaði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, með öðrum leiðtogum, m.a. Donald Trump, til þess að ýta á eftir meira samstarfi í baráttunni gegn hryðjuverkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka