Flakið norðar en áður var talið

Vísindamenn við stofnunina Commonwealth Scientific and Industrial Research Organisation í …
Vísindamenn við stofnunina Commonwealth Scientific and Industrial Research Organisation í Ástralíu létu raunverulegan væng af Boeing 777 reka til að finna út staðsetningu flaksins. AFP

Ný sönnunargögn benda til að flak farþegaþotu Malaysia Airlines, MH370, sé að finna norður af svæðinu sem helst hefur verið leitað á hingað til. Þetta segja ástralskir vísindamenn.

Þotan hvarf af ratsjám á leið sinni frá Peking til Kuala Lumpur í mars árið 2014. Um borð voru 239 manns.

Í janúar síðastliðnum ákváðu yfirvöld í Ástralíu, Malasíu og Kína að hætta leitinni að þotunni sem þá hafði staðið yfir mánuðum saman en án árangurs.

Ástralskir vísindamenn hafa nú greint allar þær upplýsingar sem liggja fyrir og notað reiknilíkön sem sýna að flak vélarinnar er, að þeirra mati, einhvers staðar á 25.000 ferkílómetra svæði norður af svæðinu í Indlandshafi sem mest hefur verið leitað á hingað til.

Vísindamennirnir hafa m.a. notað raunverulegan flugvélavæng af Boeing 777 þotu til að komast að niðurstöðu sinni, en brot af væng vélarinnar fannst við Reunion-eyju í júlí árið 2015. Var rek vængsins skráð og í ljós kom, að sögn vísindamannanna, að hann rak um 20 gráður meira til vinstri og hraðar en eftirlíking af væng sem hafði áður verið notuð við rannsóknirnar.

Miðað við þessar nýju niðurstöðu segjast vísindamennirnir loks skilja hvers vegna vænginn rak að Reunion-eyju fyrir tæpum tveimur árum.

Niðurstaða vísindamannanna nú styður niðurstöðu skýrslu sem kom út í desember. Yfirvöld í Ástralíu sögðu er sú skýrsla kom út að hún nægði ekki til að halda leitinni áfram þar sem hún gæfi ekki nákvæmari staðsetningu flaksins.

Malasísk stjórnvöld fara með rannsókn á hvarfi vélarinnar og hafa nú fengið niðurstöður áströlsku sérfræðinganna í hendur. Þau munu meta hvort leitinni verður haldið áfram eða ekki. 

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka