Taldir tengjast árásunum í Brussel

Spænska lögreglan við húsleit á einni þeirra 12 íbúða sem …
Spænska lögreglan við húsleit á einni þeirra 12 íbúða sem leitað var í. AFP

Spænska lögreglan greindi frá því í dag að hún hefði handtekið 9 menn og gert húsleit á 12 stöðum í Barcelona í aðgerðum gegn íslömskum vígamönnum sem taldir eru tengjast hryðjuverkaárásunum í Belgíu á síðasta ári.

Aðgerðin var unnin í samstarfi við lögregluyfirvöld í Belgíu og Marokkó.

Hið minnsta þrír þeirra sem voru handteknir eru taldir tengjast hryðjuverkaárásunum á flugvöllinn og neðanjarðarlestarstöð í Brussel í mars í fyrra, sem kostuðu 31 manns lífið.

Átta mannanna voru marokkóskir, en einn spænskur og eru þeir allir á fertugsaldri. Flestir þeirra eru sagðir vera nú þegar á sakaskrá vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, m.a. vegna fíkniefnasmygls að því er Reuters greinir frá.

Spænska lögreglan leiðir hér á brott einn mannanna níu sem …
Spænska lögreglan leiðir hér á brott einn mannanna níu sem voru handteknir. AFP

Flestir mannanna hafa búið í rúm 20 ár í Katalóníuhéraði á Spáni, þó að þeir hafi iðulega farið í heimsókn til Marokkó, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá Hæstarétti Spánar.

Við húsleitina fundust skjöl, tölvur og harðir diskar sem nú verða rannsakaðir af lögreglu. Auk þess fundust þrjár byssur og fíkniefni, m.a. maríjúana.

Marokkóska lögreglan framkvæmdi einnig húsleitir þar í landi í fasteignum sem mennirnir eru taldir hafa tengsl við.

Átta mánaða rannsókn liggur að baki húsleitunum nú, á hópi sem grunaður er um að hafa íslamska vígamenn með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi í Barcelona innan sinna raða. En það var eftir ábendingu frá almenningi sem lögregla tók að fylgjast með hópinum, að sögn spænska dagblaðsins La Vanguardia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert