Yfir eitt þúsund manns hafa verið handteknir í Tyrklandi í nýrri herferð yfirvalda í landinu gegn stuðningsmönnum útlagaklerksins Fethullah Gulen. Þetta hefur tyrkneska Anadolu-fréttastofan eftir innanríkisráðherra Tyrklands, Suleyman Soylu.
Rúm vika er nú frá því að Tyrkir samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu stjórnarskrárbreytingar sem veita Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta aukin völd.
Sagði Soylu 1.009 manns hafa verið handtekna í 72 héruðum víðsvegar um Tyrkland í þessari nýju herferð. En fólkið var handtekið vegna meintra tengsla sinna við Gulen, sem tyrknesk yfirvöld telja standa að baki mislukkaðri valdaránstilraun í landinu síðasta sumar.