Frönsk stjórnvöld segjast hafa sannanir fyrir því að sýrlenski stjórnarherinn hafi „án alls vafa“ varpað sprengjum með taugagasinu sarín á þorp sem uppreisnarmenn höfðu á valdi sínu í landinu í síðasta mánuði. Utanríkisráðherrann Jean-Marc Ayrault segir að sýni sem tekin voru á vettvangi hafi borið þess merki að vera framleidd af sýrlenskum stjórnvöldum.
Að minnsta kosti 87 létust í árásinni sem átti sér stað í þorpinu Khan Sheikhoun í Idlib-héraði.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hefur sagt árásina uppspuna. Hann heldur því fram að stjórn sín hafi aldrei beitt efnavopnum og að hún hafi látið öll slík vopn úr vopnabúri sínu af hendi árið 2013. Það var gert í kjölfar ásakana um að saríni hefði verið veitt í úthverfi höfuðborgarinnar Damaskus. Hundruð létust í þeirri árás.
Árásin á þorpið var gerð þann 4. apríl. Hundruð þorpsbúa fengu einkenni gaseitrunar. Uppreisnarmenn segja, og undir það taka Bandaríkjamenn og fleiri ríki, að sýrlenski loftherinn hafi staðið að baki árásinni.
Þegar hefur verið staðfest að efninu sem var beitt sé sarín. Í skýrslu franskra yfirvalda um málið kemur nú fram að stjórnvöld í Sýrlandi hafi staðið að baki framleiðslu eitursins.
„Við vitum, samkvæmt okkar heimildum, að framleiðsluaðferðin við þetta tiltekna gas er dæmigerð fyrir þær aðferðir sem notaðar eru á sýrlenskum rannsóknarstofum,“ sagði franski utanríkisráðherrann í dag. Þetta segir hann hægt að staðfesta með því að bera saman við sýni af eiturgasi sem notað hefur verið í öðrum árásum.