Stjórn Bashar al-Assads Sýrlandsforseta sakaði í dag stjórnvöld í Frakklandi um að leyna því hverjir stæðu raunverulega á bak við efnavopnaárásina á bæinn Khan Sheikhun. 88 manns, þar af 31 barn, fórust í árásinni sem frönsk yfirvöld segjast hafa sannanir fyrir að Sýrlandsstjórn beri ábyrgð á.
Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, greindi í gær frá því að sýni sem tekin voru á vettvangi hafi borið þess merki að vera framleidd af sýrlenskum stjórnvöldum.
Sýrlandstjórn hefur alfarið hafnað þessum ásökunum og fordæmir fullyrðinguna sem „herferð blekkinga og skammalegra lyga og tilbúnings sem Ayrault hafi sett fram.“
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Sýrlands segir að þarna sé um að ræða tilraun til að fela sannleikann á bak við árásina og hverjir hinir raunverulegu árásarmenn séu.
„Ríkisstjórn Frakklands hefur hvorki yfirráð né dómsvald til að úrskurða hvað gerðist í Khan Sheikhun,“ sagði í yfirlýsinguni.
Sýrlandsstjórn hefur ítrekað neitað því að bera Sýrlandsher noti efnavopn og í viðtali við AFP-fréttastofuna fyrr í þessum mánuði sagði Assad ásakanirnar vera „100% uppspuna“ og skálkaskjól fyrir loftárásir Bandaríkjahers á sýrlenskar herstöðvar.