Bandaríska flugfélagið United Airlines náði í dag samkomulagi við farþega sem það lét fjarlægja með valdi úr flugvél sinni nýverið þar sem hann neitaði að yfirgefa hana.
Flugvélin hafði verið yfirbókuð og voru tveir farþeganna beðnir að yfirgefa hana svo starfsmenn flugfélagsins fengju sæti eftir að enginn bauð sig fram. Þeir neituðu og voru þá fjarlægðir með valdi.
Fram kemur í frétt AFP að United Airlines hafi lofað bót og betrun og að leggja meiri áherslu á að veita farþegum sínum góða þjónustu. Farþeginn sem flugfélagið hefur samið við var dreginn úr flugvélinni með áverka í andliti og náðist atvikið á myndband sem síðan fór eins og eldur um sinu á netinu.
Lögfræðingur mannsins, David Dao, hefur staðfest að samkomulag hafi náðst um skaðabætur en ekki hefur verið gefið upp í hverju það felist nákvæmlega. Eina sem vitað er að upphæðin er trúnaðarmál. Málið vakti hörð viðbrögð og hefur flugfélagið síðan reynt að lágmarka tjónið vegna þess.