Rík ungmenni plötuð á „hungurleikana“

Raunveruleikinn (t.h.) var allt annar en sá sem kynntur var …
Raunveruleikinn (t.h.) var allt annar en sá sem kynntur var í kynningarefni Fyre- hátíðarinnar (t.v.). Skjáskot/samsett mynd

Þau áttu von á íburðarmikilli tónlistarhátíð á Bahamaeyjum þar sem fara átti í jóga, á kajak, snæða dýrindis kræsingar og upplifa menningu eins og hún gerist best. En ríku ungmennin, sem létu blekkjast og keyptu rándýra miða á tónlistarhátíðina Fyre, eru ævareið. Ekkert stóðst sem hátíðarhaldarar höfðu boðað. Flugferðum var aflýst, engin öryggisgæsla var á staðnum og eina sem unga fólkið fékk að borða var þurrt brauð og kálblað.

„Algjör hörmung,“ er það sem flestir segja um hátíðina.

Miðarnir á Fyre-hátíðina kostuðu allt að 12.000 dollurum, um 1,2 milljónum króna. Innifalið var flug frá Miami til paradísareyjanna Bahamaeyja. Þeir sem stóðu að hátíðinni hafa loks aflýst henni „vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna“.

Margir komust ekki á hátíðina þar sem flugferðum sem gestir hennar höfðu bókað var aflýst með engum fyrirvara. Meðal þeirra sem áttu að koma fram á hátíðinni var hljómsveitin Blink-182.

Hópur fólks var þó kominn á Exuma-eyju í Bahamaeyjaklasanum er ljóst var í hvað stefndi. Hátíðarhaldarar segja að hópurinn muni upplifa „frábæra hluti“.

Í frétt BBC um málið segir að enginn virðist vilja vera á svæðinu og fólk sé að reyna að komast frá eyjunni. Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri.

Samfélagsmiðlastjörnur voru notaðar til að kynna viðburðinn og höfðu boðað komu sína á svæðið. Meðal þeirra er Kendall Jenner, systir Kardashian-systranna.

Svikamylla

„Mesta svindl sögunnar,“ segir Lamaan El Gallal, sem var meðal hátíðargesta og átti í erfiðleikum með að komast af staðnum. „Þetta var átakanleg lífsreynsla. Þó að margir séu að gera grín að þessu, segja að ríkir krakkar kunni ekki að tjalda, þá var það ekki málið. Þetta er versta lífsreynsla sem ég hef lent í.“

Margir hafa líkt viðburðinum við Hungurleikana, þekktar bækur og kvikmyndir þar sem ungmenni eru skilin eftir úti í náttúrunni og eiga að berjast til síðasta blóðdropa.

Frétt BBC

Frétt Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert