Yngri bræður hinnar nígerísku Yagana Bukar voru í hópi 300 barna sem Boko Haram-hryðjuverkasamtökin rændu úr bænum Damasak í Nígeríu fyrir tæplega þremur árum. Ránið á þeim Mohammed, Sadiq og hinum börnunum í bænum vakti hins vegar ekki sams konar reiði alþjóðasamfélagsins og rán samtakanna á 219 skólastúlkum frá Chibok.
Ekki var efnt til neinna mótmæla á samfélagsmiðlum vegna barnanna í Damasak, sem flest voru drengir í kringum 10 ára aldurinn. Fæst þeirra hafa sést síðan.
Ríkisstjórn Nígeríu neitaði á sínum tíma að ránið á börnunum hefði átt sér stað. Sumir bæjarbúar neituðu því raunar einnig af ótta við reiði stjórnmálamanna sem þegar áttu í basli vegna ránsins á skólastúlkunum.
Damasak einn fjölmargra staða í Nígeríu sem hafa farið illa úti í átökum við Boko Haram, en talið er að meira en 20.000 manns hafi látið lífið í Nígeríu í átökum síðustu átta ára. Milljónir hafa þá hrakist frá heimilum sínum og þá hefur verulegur fæðuskortur orðið í kjölfar átakanna.
„Þegar Boko Haram komu söfnuðu þeir saman öllum börnunum og fóru með þau á lokað svæði,“ sagði Bukar sem nú er tvítug.
„Liðsmenn Boko Haram fóru með völdin í bænum þá, þeir voru ekki búnir að brenna hann þá eða drepa fólkið.“ Bræður Bukars, þeir Mohammed og Sadiq voru í hópi þeirra barna sem samtökin rændu.
Þegar Boko Haram hafði verið með bæinn á valdi sínu í viku ákvað fjölskylda Bukar að fylgja fordæmi margra annarra bæjarbúa og flýja til nágrannaríkisins Níger. Hún hefur ekki séð bræður sína síðan.
„Ég vona að þeir komi aftur heilir á húfi,“ segir hún og tárin streyma. „Ég sakna þeirra mikið. Þeir eru alltaf í huga mér.“
Nígeríuher, sem náði Damasak aftur á sitt vald í júlí í fyrra, segist ekki hafa neinar nýjar upplýsingar um það hvar börnin kunni vera.
Tiltölulegur friður ríkir nú á svæðinu sem Damasak er á og vinna stjórnvöld nú að uppbyggingu vega og innviða eftir áralanga baráttu við liðsmenn Boko Haram. Þá hafa hjálparsamtök einnig hafist handa við að dreifa matvælum og koma á fót heilbrigðisþjónustu, m.a. með bólusetningu gegn lömunarveiki.
Merki átaka síðustu ára blasa hins vegar alls staðar við. Svart merki Boko Haram sést m.a. á veggjum húsarústa við aðalgötu Damasak.
Fyrir marga er lífið því að færast í eðlilegt horf á ný og þannig hefur t.a.m. grænmetismarkaðurinn opnað á nýjan leik í bænum. Börn sjást að leik og til stendur að opna aftur skólann í næsta mánuði.
Fæst barnanna 300 sem hurfu hafa hins vegar sést aftur. Hinn 14 ára gamli Baba Kaka er einn fárra drengja sem náðu að flýja frá Boko Haram og snúa aftur til Damasak.
Goni Modu Aji, einn bæjarbúa, telur því óréttlát að athyglin hafi eingöngu beinst að skólastúlkunum í Chibok. „Það var bara talað um Chibok,“ segir hann. „Það var ekkert talað um hina staðina.“