Vettvangi fjöldamorðs breytt í safn

Pulse í Orlando verður breytt í safn.
Pulse í Orlando verður breytt í safn. AFP

Næturklúbbnum Pulse í Flórída, þar sem 49 manns dóu í skotárás manns sem lýsti yfir stuðningi sínum við Ríki íslams, verður breytt í safn. Þetta sagði eigandi staðarins á blaðamannafundi.

Klúbburinn var vinsæll á meðal samkynhneigðra í borginni Orlando í Flórída. Hugsunin á bak við að breyta staðnum í safn er að veita þeim sem misstu ástvini í árásinni huggun og um leið að vekja athygli á mikilvægi umburðarlyndis, að sögn eigandans Barbara Poma.

„Núna er rétti tíminn til að Pulse leggi sitt af mörkum til samfélagsins um ókomna tíð,“ sagði hún. „Núna er þetta heilög jörð.“

Fjöldamorðið á staðnum var það mannskæðasta í Bandaríkjunum síðan í hryðjuverkaárásunum 11. september.

Mateen lét til skara skríða á næturklúbbnum Pulse.
Mateen lét til skara skríða á næturklúbbnum Pulse. AFP

Bandarískur maður, Omar Matteen, sem átti afganska foreldra, hóf skothríð með tveimur byssum. Flestir þeirra 49 sem létust voru frá Puerto Rico.  Alls særðust 68 í árásinni. Eftir að maðurinn hafði tekið gísla ruddist lögreglan inn á klúbbinn og drap hann.

Matteen, sem var 29 ára, lýsti yfir stuðningi sínum við Ríki íslams rétt áður en skotárásin hófst.

Næturklúbburinn hefur verið lokaður síðan árásin var gerð. Fjöldi fólks hefur engu að síður hist fyrir utan staðinn til að minnast fórnarlambanna.

„Þið skulið muna, við ætlum ekki að leyfa hatrinu að vinna, við ætlum að leyfa sárum okkar að gróa í sameiningu,“ sagði Poma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka