Allt getur gerst í pólitík og þrátt fyrir að skoðanakannanir bendi til stórsigurs Emmanuel Macron í forsetakosningunum í Frakklandi á morgun er ekki hægt að segja til um niðurstöðuna fyrr en talið hefur verið upp úr kjörkössum. Það eina sem er fullvíst er að næsti forseti Frakklands kemur ekki úr röðum repúblikana eða sósíalista – sá fyrsti frá stofnun fimmta lýðveldis Frakklands.
Múslimar í Frakklandi óttast mjög um sinn hag verði Marine Le Pen kjörin forseti Frakklands á sunnudag. Meðal þeirra er Hanane Charrihi sem býr í úthverfi Parísar. Móðir hennar, Fatima Charrihi, 59 ára, var fyrsta fórnarlamb hryðjuverkaárásar á þjóðhátíðardegi Frakka í Nice í fyrra.
„Dauði hennar sýnir okkur að við þurfum meira á umburðarlyndi að halda en nokkru sinni fyrr,“ segir hún við blaðamann Guardian. Hún segir Frakka umburðarlynda en stundum sé eins og þeir sem ekki geti sýnt öðrum umburðarlyndi og virðingu hafi hæst og fái mest rými í fjölmiðlum.
Fatima Charrihi var á leiðinni að hitta barnabörn sín og ætlaði að fá sér ís með þeim við strandgötuna. Þrátt fyrir að vera með höfuðklút (hijab) var hún fyrsta manneskjan sem árásarmaðurinn ók niður. Vígasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á árásinni en alls létust 86 þetta kvöld í Nice. Þriðjungur þeirra voru múslimar.
Hluti kvenna í fjölskyldu Fatimu Charrihi gengur með höfuðklúta og hafa þær orðið fyrir áreiti af hálfu fólks sem þær þekkja ekki og eru jafnvel kallaðar hryðjuverkamenn. Gerðist það jafnvel þar sem þær krupu við hlið líks Charrihi á vettvangi árásarinnar. „Við viljum ekki fólk eins og ykkur hér,“ sagði maður við fjölskylduna þegar hún gekk fram hjá kaffihúsi skömmu eftir árásina.
Hanane Charrihi er 27 ára lyfjafræðingur og búsett í úthverfi Parísar. Þegar hún upplifði það eftir lát móður sinnar að helsta vandamálið í stjórnmálum landsins væru múslimar var henni nóg boðið og skrifaði bókina Ma mère patrie (Land móður minnar). Þar bendir hún á mikilvægi þess að búa saman í sátt og samlyndi sama hverrar trúar þú ert.
Þjóðernisflokkurinn Front National jók fylgi sitt töluvert í Nice eftir árásina líkt og víðar í Frakklandi en alls fékk Le Pen 7,6 milljónir atkvæða í fyrri umferðinni. Eitt af hennar helstu kosningamálum eru málefni tengd íslam og sjálfsmynd þjóðarinnar.
„Ég er frönsk. Ég elska land mitt og það var eins og fólk væri að segja við mig: Nei þú getur ekki mögulega elskað Frakkland,“ segir Hanane Charrihi í viðtali við Guardian.
„Öll þessi áhersla á sjálfsmynd þjóðar hjá stjórnmálamönnum er eyðsla á tíma sem betur væri varið í atvinnumál og eða húsnæðismál,“ segir Charrihi.
Í kosningabaráttunni hafa þau Le Pen og Macron skotið fast á hvort annað varðandi íslam og sjálfsmynd þjóðar. Árið 2015 var Le Pen sýknuð af ákæru um hatursorðræðu eftir að hafa líkt bænum múslima á götum úti við hernám nasista.
Macron heldur því aftur á móti fram að hún sé fulltrúi flokks haturs. Á kosningafundi fyrr í vikunni í París sagðist hann ekki sætta sig við að fólk væri vanvirt fyrir það að vera íslamtrúar.
Á rúmlega tveimur árum hafa yfir 230 manns látist í hryðjuverkaárásum í Frakklandi og segir Le Pen að Frökkum stafi banvæn hætta af harðlínu-íslamistum og sakar Macron um að vera allt of umburðarlyndan í garð slíkra einstaklinga en á móti sakar hann Le Pen um að sundra Frakklandi og kynda undir borgarastyrjöld.
Þrátt fyrir að miklar líkur séu á að Macron verði kjörinn forseti Frakklands á morgun er óvíst hvaða áhrif það hefur á kjósendur að mikið magn tölvupósta hans og kosningaframboðs hans hafi verið lekið á netið skömmu áður en lokað var fyrir heimild frambjóðenda til að tjá sig og koma fram opinberlega fram yfir kosningar. Því í Frakklandi mega frambjóðendur hvorki koma fram opinberlega né tjá sig við fjölmiðla frá því daginn fyrir kjördag og á kjördag sjálfan.
Eins má ekki birta skoðanakannanir um fylgi frambjóðenda á sama tímabili. Þegar þetta er ritað er ekki vitað nákvæmlega hvort eitthvað hneykslanlegt komi fram í gögnunum sem var lekið né heldur hvað af þeim eru skáldaðir póstar eða hvað er sannleikur.
Minnir þetta mjög á lekann á gögnum frá skrifstofu Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum, í fyrra en munurinn er sá að lekinn þá var mun fyrr í kosningabaráttunni. Flesta grunar aftur á móti að lekinn komi úr sömu átt – það er Rússlandi. Án þess að það hafi verið sannað.
Eins þykir mörgum vinstrimönnum Macron vera fulltrúi auðvaldsins og yfirstéttarinnar holdi klæddur. Fyrrverandi bankamaður sem hagnaðist mjög á samrunum fyrirtækja. Ekki batnaði afstaða þeirra í hans garð þegar Macron gegndi starfi ráðherra efnahagsmála í ríkisstjórn Hollande forseta.
„Fyrir Frakka eru peningar og kapítalismi ákveðin tegund bölvunar,“ segir fræðimaðurinn Pascal Bruckner, sem skrifaði bókina The Wisdom of Money þar sem afstaða Frakka til peninga er rakin en hann telur að rekja megi rætur hennar til kaþólsku kirkjunnar.
Bruckner líkir afstöðu Jean-Luc Mélenchon í garð Macron við afstöðu leiðtoga kommúnistaflokks Þýskalands árið 1933 sem hvatti flokksmenn til þess að greiða atkvæði gegn sósíalistum frekar en nasistum. „Þetta er hörmulegt,“ segir hann en eins og fram hefur komið hefur Mélenchon ekki lýst yfir stuðningi við Macron heldur aðeins beðið kjósendur sína (Mélenchon fékk tæplega 20% í fyrri umferðinni) að kjósa ekki Le Pen.
New York Times hefur eftir Zeev Sternhell, sem er fæddur í Póllandi en starfar sem stjórnmálafræðingur (er sjálfur vinstrisinnaður) í Ísrael, að gagnrýnendur Macron til vinstri telji að efnahagsstefna hans sé meira til hægri en vinstri. Miðju-pólitík Macron sé ekkert annað en frjálslynd stefna sem virði mannréttindi og ekki með öfgar í neina átt. Þetta sé stefna sem sé búið að fínpússa og tengja við miðju.
Meðal stefnumála Le Pen er að banna trúartákn, svo sem höfuðklúta múslima á almannafæri. Eins að banna slátrun dýra að hætti ákveðinna trúarbragða íslam og gyðinga, halal og kosher. Hún gengur hins vegar engan veginn jafnlangt og faðir hennar á sínum tíma, Jean-Marie Le Pen, stofnandi Front National. Þegar hann komst í seinni umferð forsetakosninganna árið 2002 stóðu í raun fulltrúar allra stétta þjóðfélagsins saman gegn honum. Tóku þátt í fundum, sameinaðir gegn rasisma. Þá fékk Jacques Chirac 82,2% atkvæða á meðan Jean-Marie Le Pen fékk 17,8%.
En nú er öldin önnur. Í ár eru mótmæli gegn Le Pen færri, lágværari og sundraðri. Mun færri telja ástæðu til þess að mótmæla rasisma og Front National er í dag viðurkenndur sem hluti af pólitísku landslagi Frakklands. Fjölbreytileikinn er alls ráðandi í huga sumra en í huga annarra snýst þetta um okkur og þá – borg og sveit, ríka og fátæka, frumbyggja (fólks sem á djúpar rætur í Frakklandi) og innflytjendur.
Blaðamaður Guardian fór á markað í Aubervilliers í vikunni en Aubervilliers er hluti af Seine-Saint-Denis, þar sem margir íbúanna eru fátækir og af erlendu bergi brotnir. Atvinnuleysi er mjög mikið meðal ungs fólks og einn þeirra sem óttast kjör Le Pen er Ezzedine Fahem, 62 ára. Hann segir að í ákveðnum hlutum Frakklands njóti Le Pen mikils stuðnings en á svæðum eins og þessum veki mikið fylgi hennar mikinn ugg meðal íbúa.
„Í mínum huga eru múslimar, trúarbrögð, útlendingar, skotmörk hennar. Allt þetta tal um aðlögun. Líttu í kringum þig. Allir sem koma annars staðar frá eru þvingaðir inn í gettó sem þetta. Jafnvel þrátt fyrir að þú sért franskur og fæddur hérna þá ertu alltaf hrakinn aftur í rætur þínar. Þú ert Frakki en þrátt fyrir það ertu alltaf arabi. Þú er ert alltaf svartur, þú ert alltaf gyðingur,“ segir Fahem.
Á þessum sama markaði hittir blaðamaður Guardian Alexandre Aidara að máli en hann er að dreifa kosningaáróðri Macron til gesta og gangandi. Aidara er 49 ára verkfræðingur sem ætlar í framboð fyrir nýstofnaðan flokk Macron, En Marche!, í komandi þingkosningum.
Aidara er fæddur í Senegal og lærði í Frakklandi, þar á meðal í elítu-skóla sem fer fyrir brjóstið á ýmsum, École Nationale d’Administration, en flestir af forsetum Frakklands undanfarna áratugi hafa gengið í þann skóla. Macron er einn þeirra sem nam við skólann á sínum tíma.
Hann segir að val Macron á frambjóðendum til þings úr hópi þjóðernislegra minnihlutahópa (ethnic minorities) sé tilraun til þess að hrista upp í stéttaskiptingu fransks þjóðfélags.
Í Seine-Saint-Denis, þar sem stór hluti íbúa á rætur annars staðar en í Frakklandi, er aðeins einn þingmaður af 13 ekki hvítur. Af 577 þingmönnum á franska þinginu eru fjórir sem teljast til minnihlutahópa, það er þeirra sem ekki eiga sér djúpar rætur í frönsku samfélagi.
Afstaða Le Pen til úthverfa Parísar (svokölluð banlieues) er sú að setja öryggi í fyrsta sæti. Macron telur aftur á móti að mismunun sé vaxandi vandamál og þar skipti mestu að veita fólki tækifæri í atvinnulífinu. Til að mynda að veita fyrirtækjum bónusa fyrir að ráða til sín fólk úr fátækustu hlutum úthverfa Paríar. Þar skipti fyrirmyndirnar miklu máli.
Aidara segir í samtali við Guardian að fyrirmyndirnar í þessu hverfi séu rapparar og knattspyrnumenn. „Það er fínt. List og menning er af hinu góða. En þú átt líka að ná árangri með því að mennta þig. Eins og ég gerði með því að læra verkfræði. Mismunun stendur fyrir mikið efnahagslegt tap fyrir hagkerfið og ríkið,“ segir Aidara.
Eitt af því sem hefur ekki bara farið fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Le Pen heldur einnig sósíalistum er afstaða Macron í garð hryðjuverka og baráttunnar gegn þeim.
Macron segir að hann telji að rétta leiðin til þess að berjast gegn hryðjuverkum sé að kafa dýpra. Hvers vegna börn sem fædd eru í Frakklandi taki upp vopn og beiti þeim gegn eigin landi þegar þau vaxa úr grasi.
Aidara segir um þetta að þegar fólk sem er fætt í Frakklandi ræðst gegn Frakklandi hafi aðlögunin mistekist. Nauðsynlegt sé að ráðast á vandann þar sem hann er mestur. Með því að fjölga störfum, auka menntun og brjóta glerþakið sem er á milli þjóðfélagshópa.
„Rasismi, rasismi rasismi – það er það sem ég er hræddur við í Frakklandi,“ segir 49 ára gamall maður, sem fæddur er í Túnis en býr og starfar í Saint-Denis, í samtali við Guardian. Hann segist ekki hafa kosið í fyrri umferðinni en hann ætli að kjósa á morgun og draga alla sem hann þekki á kjörstað. „Ég ætla að sparka þeim fram úr rúminu og kjósa Macron. Ég myndi í venjulegu árferði ekki kjósa Macron en hvaða kostir eru í stöðunni? Þessum kosningum er ekki lokið. Úrslitin eru ekki kunn. Ég óttast að Le Pen fari með sigur af hólmi og ef það gerist mun ég væntanlega fara frá Frakklandi og ekki snúa aftur fyrr en hennar tími er liðinn.“
Byggt á umfjöllun eftirtalinna miðla:
Guardian (Byggt á nokkrum greinum)
New York Times (nokkrar greinar sem tengjast þessari)
AFP, Reuters, BBC.