39 ára pólitískt undrabarn

Emmanuel Macron var kjörinn forseti Frakklands í gær.
Emmanuel Macron var kjörinn forseti Frakklands í gær. AFP

Emmanuel Macron hefur glímt við siðavenjur og brotið hefðir á bak aftur í  hinu óhefðbundna einkalífi sínu og á stuttum stjórnmálaferli. Þessi sonur tveggja lækna í borginni Amiens í norðurhluta Frakklands er sprottinn úr allt öðrum jarðvegi en hefðbundinn franskur stjórnmálaleiðtogi, ef undan er skilin menntun í skólum elítunnar og bestu háskólum Frakklands.

Í fyrsta lagi, þá gekk hann að eiga hina 64 ára fyrrum kennslukonu sína Brigitte Trogneux sem skildi við eiginmann sinn og föður þriggja dætra hennar eftir að hún varð ástfanginn af Macron sem þá var á táningsaldri.

Í öðru lagi fetaði hann einhverja ólíklegustu leið í forsetastólinn sem um getur í nútímasögunni. Frá því að vera nær óþekktur fyrir þremur árum í leiðtoga sem hafði þó engan stjórnmálaflokk á bak við sig. Þessi áhugamaður um heimspeki, bókmenntir og klassíska tónlist ýtti pólitískt óháðri hreyfingu úr vör í fyrrasumar En Marche eða Áfram gakk. Sagði hann hana hvorki vera til hægri né vinstri, sem er óvenjuleg staðsetning í pólitíska litrófinu í Frakklandi. Fékk hann að láni ýmis stefnumál frá hægri vængnum en hugmyndir um samfélagslegar aðgerðir frá vinstri.

Hlaut framboð hans litlar undirtektir framan af. Meðal annars var honum fundinn aldurinn og pólitískt reynsluleysi til foráttu. Einungis nánasti kjarni samverkamanna hans hafði trú á framboðinu, að Macron gæti orðið forseti 2017 aðeins 39 ára að aldri og einu ári yngri en þegar Napoleon keisari tók við völdum í Frakklandi 1804.

En áfram gekk Macron og ávann sér ímynd kraftmikils nútímasinna er dró að honum þúsunda sjálfboðaliða er liðsinntu útbreiðslu og grasrótarstarfi hreyfingar forsetaefnisins. Var Áfram gakk mótað á sama grunni og grasrótarhreyfing Baracks Obama í Bandaríkjunum 2008.   

Eftir að hann sagði af sér starfi efnahagsráðherra í stjórn Francois Hollande forseta í ágúst sl. settist hann niður og skrifaði bók og gerði grein fyrir viðhorfum sínum og hugmyndum fyrir Frakkland framtíðarinnar. Eftir að hafa kynnt bókina, sem bar nafnið Bylting, tilkynnti hann svo um framboð sitt til forseta þann 16. nóvember sl. á atvinnuleysisskrifstofu í hraktri útborg í París. „Við getum ekki boðið upp á sömu mennina og sömu hugmyndirnar,“ sagði hann þar.

Ljóst var eftir risafund í ráðstefnumiðstöð í Suður-París í desember að um alvöru framboð væri að ræða, sem ekki væri hægt að afgreiða sem léttvægt væri. Í millitíðinni hagnaðist Macron svo af upplausninni í Sósíalistaflokknum svo og hneykslismál sem frambjóðandi mið- og hægrimanna, Francois Fillon, rataði í, en fram af því þótti hann líklegastur til að verða kjörinn forseti.

„Hann var heppinn, þessi mál hjálpuðu honum mikið,“ segir stjórnmálablaðamaðurinn Anne Fulda, sem skrifaði nýlega æviágrip nýja forsetans. En vegna mikilla og almennra vonbrigða í garð stjórnmálastéttarinnar höfðaði Macron til mikils fjölda kjósenda sem vildu sjá víðtækar breytingar á samfélaginu og stjórnmálunum. Það er af sama grunni sem Marine Le Pen sótti stærstan hluta fylgis síns, óánægju með gjörðir - eða öllu heldur aðgerðaleysi - stjórnmálamanna.

Sem námsmaður starfaði Macron sem aðstoðarmaður frægs fransks heimspekings og fór hefðbundna leið frönsku elítunnar gegnum skólana. Nam hann við stjórnmálavísindaskólann Science-Po í París þar sem hann hlaut meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu áður en hann bjó sig síðan undir starf í opinberri þjónustu í stjórnendaskólann ENA, sem margur leiðtoginn hefur komið úr. Þaðan útskrifaðist hann 2004.

Eftir stuttan starfstíma í fjármálaráðuneytinu í París fór hann til starfa í Rothschild & Cie bankanum. Þar hækkaði hann hratt í tign og hagnaðist um milljónir evra við að koma í kring samruna og yfirtökum í fyrirtækjageiranum. Síðan lá leiðin í stjórnmálin árið 2012 og starf aðstoðarframkvæmdastjóra Elysee-hallar. Var hann ráðgjafi Francois Hollande frá fyrsta degi og tveimur árum seinna var hann skipaður efnahagsráðherra í stjórn Hollande.

Andstæðingar hans einblína á bankatímabil á ferli hans og segja það vottfesta hann sem hluta af „alþjóða peningaelítunni“.   Sjálfsöryggi hans, rándýr klæðnaður og varnir fyrir sjálfstæða atvinnurekendur hafa nýst sem frekari vopn í augu andstæðinga Macrons. „Ég hef rætt við mörg hundruð manns og það liggur alveg í loftinu, þú ert þegar hataður,“ segir álitsgjafi lengst til vinstri, í grein í Le Monde í síðustu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka