Deilt um framtíð frönsku Þjóðfylkingarinnar

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP

Áform um að endurnefna og gjörbreyta flokki frönsku Þjóðfylkingarinnar (Front National) eftir ósigur Marine Le Pen gegn Emmanuel Macron í forsetakosningunum í Frakklandi í gær mun mæta andspyrnu og gæti ýtt undir klofning innan flokksins. Þetta er mat einstaka flokksmanna og sérfræðinga sem velt hafa fyrir sér stöðu flokksins í kjölfar ósigurs Le Pen í forsetakosningunum.

Le Pen fagnaði þeim tæplega 11 milljón atkvæðum, eða 33,9%, sem hún hlaut í seinni umferð kosninganna, en um er að ræða mesta fylgi sem flokkurinn hefur nokkurn tímann fengið í kosningum. Sagði Le Pen kosninguna vera „gríðarstóra og sögulega“. Hún hefur þó valdið virkum félagsmönnum og hátt settum einstaklingum innan flokksins nokkrum vonbrigðum sem vonuðust margir eftir minnst 40% kosningu eftir öfluga kosningabaráttu.

Skipta hugsanlega um nafn

Lykilþættir í baráttu Front National, meðal annars andstaða við Evrópusambandið og tilraunir til að teygja út stefnu flokksins til að höfða til fleiri kjósenda, gætu lent undir smásjánni nú þegar nálgast þingkosningar sem verða í sumar. Le Pen hefur sagst vonast til þess að í framhaldi af þingkosningum muni Front National, með hjálp bandamanna, verða að „aðal andspyrnuhreyfingunni“ gegn nýkjörnum forseta, Emmanuel Macron.

Hátt settir einstaklingar innan flokksins, meðal annars Florian Philippot sem er aðalráðgjafi Le Pen, og Steeve Briois, sem tók við formennsku flokksins þegar Le Pen steig til hliðar á meðan kosningabaráttan stóð yfir, hafa staðfest að það standi til að breyta nafni flokksins.

„Það snýst um að opna dyr [...] að öðrum möguleikum,“ segir Briois. Þá segir Philippot flokkinn ætla að „breytast í nýtt pólitískt afl sem muni ekki endilega hafa sama nafn.“

Franska Þjóðfylkingin fjölskylduflokkur

Le Pen laut í lægra haldi gegn hinum 39 ára …
Le Pen laut í lægra haldi gegn hinum 39 ára gamla Emmanuel Macron sem hlaut afgerandi kosningu í annarri umferð forsetakosninganna í gær. AFP

Le Pen hefur leitt ákveðna baráttu við að reyna að hreinsa orðspor flokksins, sem meðal annars hefur verið sakaður um rasisma, og að bæta ímynd hans eftir að hafa bolað föður sínum, Jean-Marie Le Pen, sem jafnframt er stofnandi flokksins, í burtu úr flokknum. Ekki hafa þó allir innan flokksins fallist á þá stefnu sem Marine Le Pen og Philippot hafa tekið upp innan flokksins.

Frænka Le Pen og ein tveggja þingmanna flokksins, Marion Maréchal-Le Pen, sagði í síðustu viku að „minnst 40% fylgi“ í kosningunum mætti kalla góðan árangur. Í dag lét hún svo þau orð falla að flokknum hafi „einfaldlega mistekist að sannfæra frönsku þjóðina…Það sé eitthvað sem þurfi að skoða á komandi vikum.“

Maréchal-Le Pen leiðir væng flokksins í suðurhluta Frakklands sem er meira hallur undir íhaldssama hægristefnu frjáls markaðar. Þykir hún nær afa sínum í skoðunum sem snúast um að vernda ímynd Frakklands og frönsk gildi og er á móti miðstýrðu hagkerfi sem er nálgun á breiðari grundvelli hjá Philippot í norðrinu.

Stefna Le Pen og Philippot umdeild

Virkir flokksmenn Front National hafa lýst yfir vonbrigðum sínum í frönskum fjölmiðlum með Le Pen og telja hana ekki hafa gert sér nægan mat úr atburðum eins og tíðum hryðjuverkaárásum, flóttamannavandanum í Evrópu og háu hlutfalli atvinnuleysis í Frakklandi, sem hún hefði getað notað gegn hinum alþjóðasinnaða Macron.

Þá setja einhverjir spurningarmerki við tilraunir Philippot til að reyna að ná til breiðari hóps kjósenda, með því að reyna að höfða ekki aðeins til þjóðernissinnaðra hægrimanna heldur einnig til hins andkapítalíska vinstris, auk hugmynda um að draga Frakkland úr evrusamstarfinu og jafnvel úr Evrópusambandinu, sem skoðanakannanir hafa sýnt að þyki óvinsælt meðal kjósenda í Frakklandi.

Skoðanakönnun á vegum Ipos leiddi í ljós að í seinni umferð kosninganna hafi Le Pen aðeins unnið á sitt band 7% þeirra kjósenda, sem studdu vinstri frambjóðendann Jean-Luc Mélenchon í fyrri umferð kosninganna, og aðeins 20% þeirra kjósenda sem greiddu hægri frambjóðendanum Francois Fillon atkvæði í fyrri umferð.

Le Pen líklegast áfram í forystu

Þrátt fyrir talsverða óánægju meðal flokksmanna með frammistöðu Le Pen í sjónvarpskappræðum frambjóðendanna í síðustu viku, þar sem hún er sögð hafa farið óvarlega með staðreyndir og varði mestum tíma í að reyna að setja Macron úr jafnvægi heldur en að útskýra eigin stefnu, verður þó að teljast ólíklegt annað en að hún verði áfram formaður flokksins.

„Það virðist ólíklegt,“ segir stjórnmálafræðingurinn Joel Gombin, sem hefur sérhæft sig í Front National, í samtali við blaðið L‘Obs, um það hvort Le Pen muni víkja úr forystusætinu. Hann segir Front National vera fjölskylduflokk en að spurningarmerki megi setja við þá stefnu sem Le Pen hefur tekið upp ásamt Florian Philippot.

Jean-Marie Le Pen, sem var rekinn úr flokknum árið 2015, lét þau orð falla í dag að Philippot væri „sá sem einna helst væri um að kenna“ fyrir ósigur dóttur sinnar í forsetakosningunum. Telur hann að dóttir sín hefði átt að tala um „alvöru vandamál, innflytjendur,“ en ekki um Evrópumál og evrusamstarfið.

Le Pen eldri segir einnig að hann muni ekki lýða það að nafn flokksins, Front National, hverfi af braut sí svona. Það yrði haldið flokksþing og „flokksmenn muni taka ákvörðun. Það sé ekki undir Philippot komið,“ að sögn Jean-Marie Le Pen.

Vilja 50 þingsæti

Hversu mikinn skaða fyrir flokkinn þessar skiptu skoðanir innan hans munu hafa í för með sér mun að miklu leyti velta á gengi flokksins í þingkosningunum sem nú eru á næsta leiti. Einhverjir fulltrúar flokksins hafa sett markið á 50 þingsæti af þeim 577 sem eru í boði og jafnvel þá í bandalagi við minni flokka á hægri vængnum.

Einhverjar nýlegar skoðanakannanir hafa þó bent til þess að flokkurinn gæti tryggt sér 15 þingsæti. Að sögn stjórnmálafræðingsins Joel Gombin munu flokksmenn þó ekki sætta sig við neitt minna en 20 þingsæti. Takist það ekki verði kallað eftir afsögn Philippot og nýrri stefnu innan flokksins. 

Samantekt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka