Sigur Emmanuels Macrons í forsetakosningunum í Frakklandi í gær var afgerandi með 66% atkvæða en sigurinn var varla í höfn fyrr en umræðan fór að snúast um áskoranirnar sem hinn nýi forseti landsins stendur frammi fyrir. Þá ekki síst hvernig Macron muni ganga að stjórna Frakklandi án stuðnings eins af hefðbundnu stjórnmálaflokkunum á franska þinginu.
Macron bauð sig fram sem sjálfstæður frambjóðandi en hafði áður verið ráðherra í ríkisstjórn Sósíalistaflokksins. Forsetinn stendur frammi fyrir því verkefni að hrinda áherslum sínum í framkvæmd án öruggs stuðnings í þinginu og að sameina frönsku þjóðina og veita henni forystu. Bent hefur verið á að rúmlega 37% kjósenda hafi annaðhvort ekki mætt á kjörstað í gær, skilað auðu eða eyðilagt atkvæðaseðilinn. Verkefni Macrons væri því ærið.
Franska dagblaðið Liberation, sem er pólitískt til vinstri, segir í leiðara að mikill þrýstingur sé á Macron jafnvel áður en hann er settur í embætti sem verður á næsta sunnudag. Hátt hlutfall þeirra sem kusu ekki þrátt fyrir þá ógn sem stafaði af Marine Le Pen, sem bauð fram undir merkjum frönsku Þjóðfylkingarinnar, væri strax til marks um óánægju með nýja forsetann.
Macron hefur kynnt umfangsmikla stefnuskrá þar sem áhersla er á umbætur innanlands. Hann vill meðal annars gera atvinnulöggjöfina sveigjanlegri sem hann telur að stuðli að miklu atvinnuleysi, draga úr útgjöldum ríkisins, bæta menntun á svæðum þar sem fátækt er landlæg og auka félagslegs öryggi þeirra sem eru sjálfstætt starfandi samkvæmt frétt AFP.
Hreyfing Macrons, En Marche, er tæplega ársgömul og þetta er í fyrsta sinn sem hann hefur boðið sig fram í kosningum. Forsetinn hefur sagt að hreyfingin muni bjóða fram í öllum kjördæmum í þingkosningunum í júní. Hins vegar eru uppi efasemdir um að En Marche takist að vinna meirihluta á franska þinginu sem þýðir að Macron kann að þurfa að mynda samsteypustjórn.