„Við erum í fordæmalausri stöðu“

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Stóri óvissuþátturinn í þessu er auðvitað hvað gerist í þingkjörinu. Hvort það myndist einhver meirihluti á bak við Macron og við höfum hefðbundna stjórn þar sem forsetinn er hinn pólitíski leiðtogi í samstarfi við forsætisráðherrann. Eða, sem er allt eins líklegt eins og staðan er núna, að það myndist einhver annar meirihluti sem hann hefur ekki stjórn á sem takmarkar þá verulega hans valdsvið og möguleika á að koma stefnumálum sínum í gegn.“

Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, í samtali við mbl.is um niðurstöður nýafstaðinna forsetakosninga í Frakklandi þar sem Emmanuel Macron, frambjóðandi hreyfingarinnar En Marche, sigraði Marine Le Pen sem bauð sig fram undir merkjum frönsku Þjóðfylkingarinnar. Sigur Macrons var afgerandi en hann hlaut atkvæði um 66% kjósenda í síðari umferð kosninganna sem fram fór í gær.

Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands. AFP

Hins vegar er Macron ekki frambjóðandi annars af hefðbundnu stóru flokkanna í Frakklandi, Sósíalistaflokksins eða Repúblikanaflokksins. Fyrir vikið hafa verið vangaveltur uppi um það hvernig honum muni ganga að koma stefnumálum sínum í gegnum franska þingið. Eiríkur segir að sú staða sé ekki óþekkt í franskri stjórnmálasögu að stjórnmálaflokkur forsetans hafi ekki haft meirihluta þingsins á bak við sig og í þá hafi forsetinn verið valdalítill.

„Við erum auðvitað í fordæmalausri stöðu. Nýkjörinn forseti kemur ekki úr öðrum af tveimur stóru flokkunum þannig að við vitum ekkert hvað gerist í þingkjörinu. Þetta er auðvitað hinn stóri óvissuþáttur málsins og verður algerlega ráðandi um það hvort Macron nær árangri eða ekki,“ segir Eiríkur. Samsteypustjórn verði hugsanlega niðurstaðan. Líklegasta leið Macrons til þess að ná þingmeirihluta verði þá bandalag við sósíalista eftir kosningarnar.

Sósíalistar horfnir sem gamalgróið afl

„Síðan er líka stór spurning hvort Þjóðfylkingin nær einhverjum árangri í þingkjörinu. Þetta er auðvitað gríðarlegur fjöldi atkvæða sem frambjóðandi flokksins fékk,“ segir Eiríkur. Forsetakosningar og þingkosningar í Frakklandi hafi yfirleitt fylgst nokkuð þétt að en það hafi hins vegar verið í þeim tilfellum þar sem slagurinn hafi verið á milli hinna tveggja stóru hefðbundnu flokka. Sú staða sé hins vegar ekki fyrir hendi að þessu sinni.

„Þetta er annars einhvers konar sigur frjálslyndis gegn þjóðernisíhaldi sem hefur verið átakaás stjórnmála í Evrópu undanfarin ár og verður sjálfsagt eitthvað áfram,“ segir Eiríkur. Spurður um gengi Sósíalistaflokksins, sem er annar af hinum hefðbundnu stóru stjórnmálaflokkum Frakklands, segir Eiríkur að flokkurinn sé í rauninni algerlega heillum horfinn en frambjóðandi hans hlaut aðeins 6,36% atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna.

Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar.
Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar. AFP

„Sósíalistaflokkurinn er bara horfinn sem þetta gamalgróna stjórnmálaafl. Hvort hann nær vopnum sínum á ný eða hvort þessi nýi flokkur verði arftaki hans sem þá svona frjálslynd útgáfa frekar en sósíaldemókratísk. Það á bara allt eftir að koma í ljós. Enda eru þetta ekki lengur átök á milli hægri og vinstri heldur eiginlega átök innan hægrisins. Hins frjálslynda hægris og þjóðernisíhaldssams hægri og vinstrivængurinn nær horfinn.“

Spurður um stöðu Repúblikanaflokksins, en frambjóðandi hans François Fillon hlaut 20% atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna samanborið við 24% fylgi Macrons þrátt fyrir ýmis hneykslismál, segist Eiríkur eiga von á að flokkurinn eigi eftir að ná að stilla vel upp fyrir þingkosningarnar. „Svo er spurningin hvað verður úr þessu flokki, En Marche, og hvernig samspil hans verður við sósíalistana. Þetta eru stóru spurningarnar.“

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka