Emmanuel Macron fékk 66,1% atkvæða í frönsku forsetakosningunum en Marine Le Pen hlaut 33,9%, samkvæmt lokatölum sem innanríkisráðuneytið birti í morgun.
Macron fékk alls 20.753.797 atkvæði samanborið við 10.644.118 atkvæði Marine Le Pen. Alls sátu 25,44% hjá, það er hæsta hlutfall hjásetu frá forsetakosningunum árið 1969. Marine Le Pen fékk tvöfalt fleiri atkvæði en faðir hennar, Jean-Marie Le Pen, þegar hann tók þátt í seinni umferðinni árið 2002. Aldrei í sögunni hefur frambjóðandi Front National fengið jafn mikið fylgi og nú en Le Pen fékk 7,6 milljón atkvæði í fyrri umferðinni.
Í gær kom fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu að um 9% allra skráðra kjósenda hefðu annað hvort skilað auðu eða ógilt kjörseðil sinn í gær. Í fyrri umferðinni var þetta hlutfall 2%. Þetta þýðir að einn af hverjum þremur á kjörskrá greiddi ekki frambjóðendunum tveimur atkvæði. Miðað við fjöldann sem skilaði auðu og mætti ekki á kjörstað má segja að Marine Le Pen hafi hafnað í þriðja sæti.
Í fyrri umferðinni sátu 22,23% hjá og er þetta í fyrsta skipti síðan árið 1969 í forsetakosningum í Frakklandi að færri mæti á kjörstað í seinni umferð kosninga. Þetta þýðir að 12 milljónir mættu ekki á kjörstað í gær og eru það þremur milljónum fleiri en árið 2012 þegar kjörsóknin var 80%. Áberandi í hópi þeirra sem ekki mættu á kjörstað eru ungir kjósendur (34%) og atvinnulausir (35%).
Skoðanakannanir benda til þess að allt að 43% þeirra sem kusu Macron, eða um 9 milljónir kjósenda, hafi kosið hann til þess að koma í veg fyrir kjör Le Pen.