Óttast að þeim verði útskúfað

Stúlkunum var sleppt úr haldi í dag.
Stúlkunum var sleppt úr haldi í dag. AFP

Sam­einuðu þjóðirn­ar hvetja fjöl­skyld­ur þeirra 82 níg­er­ísku stúlkna sem hryðju­verka­sam­tök­in Boko Haram rændu árið 2014 í bæn­um Chi­bok til að út­skúfa þeim ekki. Stúlk­urn­ar voru leyst­ar úr haldi í dag þegar fanga­skipti fóru fram.  

Ein stúlkn­anna kom til baka með hvít­voðung sinn. „Við biðlum til allra Níg­er­íu­búa, þar á meðal fjöl­skyldna þeirra og sam­fé­lags­ins sem þess­ar stúlk­ur til­heyra, að styðja þær og tryggja að þær kom­ist aft­ur inn í sam­fé­lagið,“ sagði Stephane Dujarric, talsmaður Sam­einuðu þjóðanna. 

Abu­bak­ar Shekau, leiðtogi Boko Haram, hafði hótað því að selja stúlk­urn­ar sem kyn­lífsþræla eða neyða þær til hjóna­bands með liðsmönn­um hryðju­verka­sam­tak­anna. 

Stúlk­urn­ar njóta sál­rænn­ar aðstoðar og aðhlynn­ing­ar til að ná fyrri heilsu. Ekki fékkst upp­gefið hvort stúlk­urn­ar gengj­ust und­ir fóst­ur­eyðingu. Tals­verð hætta er á að þeim verði út­skúfað úr sam­fé­lag­inu.   

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert