Sameinuðu þjóðirnar hvetja fjölskyldur þeirra 82 nígerísku stúlkna sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram rændu árið 2014 í bænum Chibok til að útskúfa þeim ekki. Stúlkurnar voru leystar úr haldi í dag þegar fangaskipti fóru fram.
Ein stúlknanna kom til baka með hvítvoðung sinn. „Við biðlum til allra Nígeríubúa, þar á meðal fjölskyldna þeirra og samfélagsins sem þessar stúlkur tilheyra, að styðja þær og tryggja að þær komist aftur inn í samfélagið,“ sagði Stephane Dujarric, talsmaður Sameinuðu þjóðanna.
Abubakar Shekau, leiðtogi Boko Haram, hafði hótað því að selja stúlkurnar sem kynlífsþræla eða neyða þær til hjónabands með liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna.
Stúlkurnar njóta sálrænnar aðstoðar og aðhlynningar til að ná fyrri heilsu. Ekki fékkst uppgefið hvort stúlkurnar gengjust undir fóstureyðingu. Talsverð hætta er á að þeim verði útskúfað úr samfélaginu.