Trump og Pútín senda Macron kveðju

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafa báðir sent Emmanuel Macron, nýkjörnum forseta Frakklands, hamingjuóskir og segir Pútín að þeir verði að starfa saman í baráttunni við hryðjuverkasamtök sem ógni heiminum.

Trump óskar Macron til hamingju með stórsigur á Twitter og segir að hann hlakki til þess að starfa með honum. 

„Til hamingju @EmmanuelMacron. Sigur þinn er sigur fyrir sameinaðri og sterkari Evrópu og vináttu Frakklands og Þýskaland,“ skrifar talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Pútín hvetur Macron til þess að brúa djúpa gjá sem er á milli Moskvu og Parísar og starfa saman að friði. „Íbúar Frakklands treysta þér til þess að leiða landið á erfiðum tíma fyrir Evrópu og fyrir heimsbyggðina alla, segir Pútín í heillaóskaskeyti til Macrons. Hann talar um aukna ógn sem stafi af hryðjuverkasamtökum sem og öfgafullum vígamönnum og að þeir þurfi að standa saman í baráttunni gegn þeim. 

Talsmaður forsætisráðherra Bretlands, Theresu May, sendi Macron kveðju fyrir hennar hönd þar sem Macron er óskað til hamingju með sigurinn. „Frakkland er einn af okkar nánustu bandamönnum og við hlökkum til samstarfsins við nýja forseti á víðu sviði sameiginlegra hagsmunamála.“

 „Hamingjusamur yfir því að Frakkar völdu framtíð Evrópu,“ skrifar forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker á Twitter. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sendi einni hamingjuóskir til Frakka. Þeir hafi kosið frelsi, jafnrétti og bræðralag og hafnað harðstjórn lygafrétta.

Forseti Kína, Xi Jinping, óskar Macron til hamingju og segir að ríkin tvö deili ábyrgð til þess að koma á friði og uppbyggingu í heiminum. 

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe segir sigur Macron táknrænan sigur gegn einangrunarhyggju og sýni að kjósendur beri traust til ESB.

Talsmaður utanríkisráðherra Íran, Bahram Ghasemi, hefur einnig óskað Macron til hamingju og segist vonast til þess að samband ríkjanna muni batna.

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, lýsir yfir áhuga á samstarfi ríkjanna tveggja, meðal annars með auku samstarfi í vísindum og tækni. Sem geti skapað störf fyrir millistétt beggja vegna Atlantsála.

Alexis Tspiras, forsætisráðherra Grikklands, segir að sigur Macron sé innspýting fyrir Frakkland og Evrópu og segist sannfærður um að þeir eigi eftir að starfa náið saman.

„Hamingjuóskir til @EmmanuelMacron, nýs forseta #France.  Við munum vinna saman að stöðugleika, bættum efnahag og nánari samskiptum Evrópu,“ skrifar forsætisráðherra Spánar,  Mariano Rajoy á Twitter.

 „Þetta er sigur fyrir frönsku þjóðina og evrópska samvinnu. Ný tækifæri munu nú opnast fyrir frumkvæði sem þörf er á til þess að styrkja ESB, þar á meðal fleiri störf og betri vinnuaðstæður,“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven. Hann segir jafnframt að með kjöri Macrons megi vænta sterkari umhverfisstefnu og virku hæliskerfi þar sem allir taki ábyrgð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka