Lengi í haldi eftir að hafa verið sleppt

Stúlkurnar bíða þess að hitta forsetann.
Stúlkurnar bíða þess að hitta forsetann. AFP

Ein af skóla­stúlk­un­um frá Chi­bok neitaði að snúa aft­ur þegar stjórn­völd sömdu um lausn henn­ar við hryðju­verka­sam­tök­in Boko Haram. Hún er í dag gift ein­um víga­manna sam­tak­anna og seg­ist ham­ingju­söm.

Garba Shehu, talsmaður níg­er­íska for­seta­embætt­is­ins, sagði Boko Haram hafa samþykkt að sleppa 83 stúlk­um í skipt­um fyr­ir nokkra liðsmenn sam­tak­anna en aðeins 82 skiluðu sér á laug­ar­dag.

Tutt­ugu og ein stúlka var frelsuð í októ­ber sl. en áður höfðu þrjár fund­ist eða tek­ist að sleppa. Fleiri en 200 skóla­stúlk­um var rænt af Boko Haram í Chi­bok í apríl 2014. Viðræður standa yfir um frels­un þeirra rúm­lega hundrað sem enn eru í haldi sam­tak­anna.

Að sögn Shehu vinna yf­ir­völd að því að bera kennsl á stúlk­urn­ar 82 til að koma þeim til fjöl­skyldna sinna eins fljótt og auðið verður. Listi með nöfn­um stúlkn­anna og mynd­ir voru send­ar til Chi­bok á sunnu­dag.

Nokk­ur áhersla er lögð á auðkenn­ing­una þar sem marg­ar stúlkn­anna bera áþekk nöfn og þegar stúlk­urn­ar tutt­ugu voru frelsaðar í októ­ber leiddi nafnarugl­ing­ur til þess að rang­ir for­eldr­ar mættu til að taka á móti þeim.

Aisha Yesufu, verk­efna­stjóri hjá þrýsti­hópn­um #Bring­Bac­kOurG­ir­ls, sagði í sam­tali við AFP að hóp­ur­inn hefði sett sig í sam­band við for­eldr­ana og ynni að því að tryggja að rétt­ir for­eldr­ar og dæt­ur kæmu sam­an.

Stjórn­völd í Níg­er­íu hafa sætt nokk­urri gagn­rýni vegna þess hversu lang­an tíma það hef­ur tekið að koma stúlk­un­um aft­ur til síns heima og í des­em­ber kvörtuðu for­eldr­ar und­an því að stúlk­un­um sem hafði þá verið sleppt væri haldið í stað þess að leyfa þeim að fagna jól­un­um í faðmi fjöl­skyld­unn­ar.

Full­trú­ar Am­nesty In­ternati­onal sögðu á laug­ar­dag að það bætti aðeins ofan á þján­ing­ar stúlkn­anna að halda þeim áfram. Shehu sagði hins veg­ar í sam­tali við AFP að stjórn­völd myndu ekki hindra neina for­eldra frá því að setja sig í sam­band við dótt­ur sína.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, situr meðal stúlknanna 82 sem Boko …
Muhammadu Bu­hari, for­seti Níg­er­íu, sit­ur meðal stúlkn­anna 82 sem Boko Haram slepptu á laug­ar­dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert