Vaxandi forskot Íhaldsflokksins

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Forskot breska Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn er 22% samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar í Bretlandi en þingkosningar fara fram í landinu 8. júní. Íhaldsflokkurinn mælist með 49% fylgi en Verkamannaflokkurinn 27% samkvæmt könnuninni sem gerð var af fyrirtækinu ICM en fjallað er um hana í frétt Daily Telegraph.

Fram kemur í fréttinni að skoðanakönnunin sé gerð í kjölfar þess að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, sakaði Evrópusambandið um að reyna vísvitandi að hafa áhrif á niðurstöður þingkosninganna með því að hóta Bretum vegna fyrirhugaðra viðræðna um útgöngu Bretlands úr sambandinu.

Enn fremur segir að yrðu þetta niðurstöður kosninganna myndi Íhaldsflokkurinn mögulega hafa yfir 170 þingsæta meirihluta í neðri deild breska þingsins en meirihluti flokksins er innan við tíu þingmenn í dag. Forskot Íhaldsflokksins hefur ekki mælst jafnmikið áður í könnunum ICM að sögn Martins Boon, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Frjálslyndir demókratar mælast með 9% og Breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) 6%. Talið er að mikið af fylgi þeirra sem áður kusu UKIP hafi færst yfir á Íhaldsflokkinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert