Er Watergate að endurtaka sig?

Enn einu sinni tekst Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að koma á óvart. Nú með því að reka forstjóra alríkislögreglunnar, James Comey, úr starfi. Manninn sem stýrir rannsókninni á því hvort aðstoðarmenn Trumps hafi veitt Rússum aðstoð þegar reynt var að hafa áhrif á þróun kosningabaráttunnar vestanhafs í fyrra. Er Watergate að endurtaka sig?

Trump sagði við Comey að FBI þyrfti á nýjum leiðtoga að halda og hlutverki hans væri lokið. Uppsögnin tæki þegar gildi.

Höfuðstöðvar FBI. Þetta er í annað skiptið frá stofnun FBI …
Höfuðstöðvar FBI. Þetta er í annað skiptið frá stofnun FBI árið 1908 að forstjóri stofnunarinnar er rekinn frá störfum. AFP

Undir stjórn Comey komst FBI að þeirri niðurstöðu að forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hefði veitt samþykki fyrir því að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu forsetakosninganna í Bandaríkjunum, Trump í hag.

Skyndileg brottvikning hans, að því er virðist vegna þess hvernig hann hafi stýrt rannsókninni á tölvupóstum Hillary Clinton, er harðlega gagnrýnd og kemur gagnrýnin ekki síst frá flokkssystkinum Trumps í Repúblikanaflokknum. Demókratar hafa þegar óskað eftir því að gerð verði sjálfstæð rannsókn á brottvikningunni. 

Málið minnir marga á Watergate þegar Richard Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna,  reyndi að þæfa rannsókn á innbroti á kosningaskrifstofur demókrata í Watergate-byggingunni með því að reka Archibald Cox, sérlegan saksóknara í málinu, í október 1973. 

James Comey var rekinn úr starfi forstjóra FBI.
James Comey var rekinn úr starfi forstjóra FBI. AFP

Ákvörðun Trumps um að reka forstjóra FBI er nánast einstök því aðeins einu sinni í sögunni hefur forstjóri FBI verið rekinn úr starfi. 

Trump tekur sérstaklega fram í bréfi sínu að hann þakki Comey fyrir að hafa í þrígang tekið fram að hann sjálfur (Trump) væri ekki til rannsóknar í málinu. Velta stjórnmálaskýrendur því fyrir sér hvort  með þessu vilji Trump halda vissri fjarlægð frá hneykslinu sem sífellt virðist stækka og dýpka varðandi hlut Rússa í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum.

Hvíta húsið tilkynnti strax í gærkvöldi að þegar væri hafin leit að nýjum forstjóra alríkislögreglunnar en þeir eru skipaðir til tíu ára. Comey, sem er 56 ára gamall, var skipaður í embætti fyrir fjórum árum. Hann hefur verið mjög farsæll og vinsæll í starfi meðal annarra starfsmanna stofnunarinnar.

Richard M. Nixon flytur kveðjuræðu eftir afsögn sína fyrir starfsfólk …
Richard M. Nixon flytur kveðjuræðu eftir afsögn sína fyrir starfsfólk Hvíta hússins 9. ágúst 1974 með Patriciu konu sína og Trishu dóttur sína sér við hlið.

Leiðtogi demókrata í öldungadeildinni. Chuck Schumer, segir að Trumpð hafi gert stór mistök með því að reka Comey. 

Ef bandarísk stjórnvöld skipa ekki sérstakan saksóknara til þess að rannsaka hlut Rússa mun hver Bandaríkjamaður telja að ákvörðunin um að reka Comey hafi verið hluti af samsærinu, segir Schumer. 

Trump svaraði Schumer á Twitter þar sem hann segir að volið og vælið í Chuck Schumer hafi byrjað um leið. „Ég treysti honum (James Comey) ekki lengur.“

Þingmenn repúblikana reyndu strax að sverja af sér ákvörðun forsetans. Segir öldungadeildarþingmaðurinn Richard Burr að tímasetning og ástæða uppsagnarinnar sé eitthvað sem erfitt sé að átta sig á. 

 JustinAmash, þingmaður repúblikana í fulltrúadeildinni, segir að bréf Trumps til Comey sé fáránlegt og að hann og starfsfólk hans sé að endurskoða löggjöf sem heimili sjálfstæða rannsókn á hlut Rússa.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Comey hefur haldið sjálfstæði sínu í pólitísku landslagi í Bandaríkjunum undanfarið ár og hefur látið margar sprengjur falla sem hafa haft áhrif á báða flokka.

Ástæðan sem gefin er upp fyrir afsögninni, samkvæmt minnisblaði er léleg stjórn á rannsókninni á tölvupóstum Clinton, sem demókratar segja skýringuna á því hvers vegna hún var ekki kjörin forseti.

Comey greindi þingmönnum frá því í síðustu viku að honum yrði ómótt við tilhugsunina um að hann hefði haft áhrif á niðurstöðu kosninganna en hann hefði ekki getað gert neitt annað.

Allt frá því Trump tók við embætti forseta hefur forstjóri FBI verið forsetanum óþægur ljár í þúfu. Nýverið staðfesti Comey að stofnunin væri að rannsaka íhlutun Rússa í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og mögulegt samstarf þeirra með starfsmönnum kosningaskrifstofu Trumps. 

Uppsagnarbréfið.
Uppsagnarbréfið. AFP

 Öldungadeildarþingmaðurinn Patrick Leahy segir málið ekkert minna en Nixon-málið. Ákvörðun Trumps sé fáránleg. 

Væntanlega verður fátt annað rætt í bandarískum fjölmiðlum í dag en ákvörðun Trumps að reka Comey. 

Chuck Schumer leiðtogi demókrata.
Chuck Schumer leiðtogi demókrata. AFP
James Comey sést hér bera vitni fyrir þingnefnd í síðustu …
James Comey sést hér bera vitni fyrir þingnefnd í síðustu viku. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka