Auðveldara að finna Pokémon í kirkjunni en Jesú

Pokémon Go naut ótrúlegra vinsælda síðasta sumar.
Pokémon Go naut ótrúlegra vinsælda síðasta sumar. AFP

Rússneskur myndbandsbloggari hefur verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að veiða Pokémona í kirkju. Maðurinn birti myndskeið á netinu þar sem hann sást eltast við furðuverurnar í kirkju og var handtekinn í kjölfarið.

Ruslan Sokolovsky, „herskár trúleysingi“, var handtekinn í ágúst í fyrra og dvaldi níu mánuði í fangelsi og stofufangelsi. Mál hans var tekið fyrir í Yekaterinburg en það þykir til marks um áhrif rétttrúnaðarkirkjunnar í landinu.

Kirkjan sakaði Sokolovsky, 23 ára, um guðlast en umrædd myndskeið sýna hann bæði veiða Pokémona í kirkju í Yekaterinburg og blóta. Þá sagði hann að það væri auðveldara að finna Pokémona í kirkjunni en Jesú.

Sokolovsky var dæmdur fyrir þrjá ákæruliði, m.a. fyrir að hvetja til haturs og brjóta gegn réttindum trúaðra. Hann var dæmdur í 42 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Dómarinn í málinu sagði að gjörðir Sokolovsky væru gjörðir öfgamanns.

Sjálfur sagðist hann saklaus og neitaði að bera vitni. Sokolovsky naut stuðnings Amnesty International, sem sagði hann samviskufanga og kallaði réttarhöldin „sýndarréttarhöld“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert