Hryðjuverk og ástarmál í forsetatíð

Hollandi greinir frá stöðu mála í Malí á blaðamannafundi árið …
Hollandi greinir frá stöðu mála í Malí á blaðamannafundi árið 2013. AFP

Francois Hollande stígur úr stól forseta Frakklands á sunnudaginn eftir fimm ár í embætti. Mikið atvinnuleysi í landinu setti mark sitt á forsetatíð hans. Bylgja hryðjuverkaárása öfgafullra íslamstrúarmanna reið einnig yfir, auk þess sem ofbeldisfull mótmæli fóru fram vegna vinnulöggjafar ríkisstjórnarinnar. Hneykslismál í tengslum við skilnað Hollande við konu sína til margra ára setti einnig svip sinn á forsetatíðina.

Hér eru nokkur af þeim atriðum sem einkenndu forsetatíð sósíalistaleiðtogans, sem hófst árið 2012. Eftir að hafa tekið ákvörðun sem ekki á sér fordæmi um að sækjast ekki eftir endurkjöri, lýkur valdatíð hans á sunnudaginn þegar Emmanuel Macron mun sverja embættiseið sinn. 

Hollande flytur sjónvarpsávarp eftir árásirnar í París í nóvember 2015.
Hollande flytur sjónvarpsávarp eftir árásirnar í París í nóvember 2015. AFP

Hryðjuverkaárásir

Röð mannskæðra hryðjuverkaárása öfgafullra íslamstrúarmanna hafa orðið meira en 230 manns að bana í Frakklandi síðan í janúar 2015. Flestir sem hafa verið að verki hafa verið franskir menn sem hafa framið voðaverk sín í nafni Ríkis íslams eða annarra öfgasamtaka.

Hollande var hrósað fyrir að sameina þjóðina eftir fyrstu árásirnar í janúar 2015 á höfuðstöðvar tímaritsins Charlie Hebdo og á stórmarkað gyðinga.

Um 50 þjóðarleiðtogar tóku þátt ásamt honum í göngu gegn hryðjuverkum. Alls tóku 3,7 milljónir manna þátt í göngunni.

Tíu mánuðum síðar brást Hollande fljótt við eftir að Ríki íslams drap 130 manns í París, þar á meðal í Bataclan-tónleikahöllinni. Forsetinn lýsti yfir neyðarástandi og sagði að Frakkland ætti í stríði. Hann lét hermenn standa vörð á götum úti.

Fjórtánda júlí í fyrra var komið að næstu árás þegar 86 manns voru drepin á þjóðhátíðardegi Frakka í borginni Nice þegar flutningabíl var ekið inn í mannfjölda sem hafði safnast þar saman. Ríkisstjórn Hollande var í framhaldinu sökuð um að hafa mistekist að takast á við hættuna sem stafar af hryðjuverkamönnum og koma í veg fyrir árásir þeirra.

Fjölmiðlar veltu sér upp úr ástarmálum Hollande.
Fjölmiðlar veltu sér upp úr ástarmálum Hollande. AFP

Erfiðleikar í einkalífinu

Áður en Hollande tók við embætti gerði hann lítið úr ástarmálum forvera síns Nicolans Sarkozy sem kvæntist fyrirsætunni Carla Bruni á meðan hann var forseti. Hollande hét því að þegar kæmi að einkalífinu myndi hann sýna gott fordæmi.

Brotalamir tóku þó að myndast í langtímasambandi forsetans og Valerie Trierweiler. Þau hættu saman eftir að í ljós kom að Hollande hafði haldið fram hjá með Julie Gayet, leikkonu sem er næstum tuttugu árum yngri en hann.

Trierweiler gaf í framhaldinu út endurminningar sínar sem seldust eins og heitar lummur. Málið var allt hið vandræðalegasta fyrir forsetann en í bókinni kom meðal annars fram að hann hefði litlar mætur á fátæku fólki.

Til að flækja málin enn frekar á Hollande fjögur börn úr fyrra sambandi með umhverfisráðherra Frakklands, Segolene Royal.

Hollande á skrifstofu sinni í Elysee-höllinni í febrúar 2015.
Hollande á skrifstofu sinni í Elysee-höllinni í febrúar 2015. AFP

Mótmæli verkalýðsins

Hollande tók við embætti í vinstrisinnuðu umhverfi. Þar voru hæstu skattar til dæmis 75%. Síðar beindi forsetinn sjónum sínum meira í átt að stefnumálum hliðhollum viðskiptaheiminum og reyndi hann m.a. að takast á við stranga vinnulöggjöf landsins.

Fjölmenn mótmæli áttu sér stað hvern mánuðinn á fætur öðrum á síðasta ári vegna umbótanna sem áttu að auðvelda vinnuveitendum að ráða fólk en einnig að reka það. Á endanum komst í gegnum þingið útvötnuð útgáfa af löggjöfinni síðasta sumar.

Vinsældir Hollande hröpuðu og olli hann mörgum vonbrigðum með stjórnun sinni á efnahagsmálum Frakklands. Þrátt fyrir loforð um að skapa störf er atvinnuleysið í landinu enn nálægt 10 prósentum.

Nýkjörni forsetinn Hollande flytur ræðu í maí árið 2012.
Nýkjörni forsetinn Hollande flytur ræðu í maí árið 2012. AFP

Stríð erlendis

Hollande hóf hernaðaraðgerð í janúar 2013 til að stöðva framgang öfgafullra íslamstrúarmanna sem höfðu tekið yfir svæði í norðurhluta Malí, sem er fyrrum nýlenda Frakka.

Í desember sama ár var önnur aðgerð sett í gang í Mið-Afríkulýðveldinu, annarri fyrrum nýlendu Frakka. Þar hafði mikið ofbeldi geisað á milli trúarbragðahópa.

Hryðjuverkamenn eru enn valdamiklir á Malí og ráða stjórnvöld í landinu ekki yfir stórum hluta landsins. Ofbeldi í Mið-Afríkuríkinu er einnig mikið enn þann dag í dag.

Hollande ákvað einnig að skipta sér af málum í Sýrlandi árið 2013 en hætti við að taka þátt í loftárásum þegar ljóst var að Barack Obama þáverandi Bandaríkjaforseti ætlaði ekki að fylgja árásunum eftir.

Frakkar gerðu loftárásir á Sýrland í september 2015, þá sem hluti af alþjóðlegu bandalagi sem var beint gegn Ríki íslams. Loftárásir Frakka gegn Ríki íslams í Írak höfðu áður byrjað í september 2014.

Hollande ásamt hópi þjóðarleiðtoga sem fór í göngu gegn hryðjuverkum …
Hollande ásamt hópi þjóðarleiðtoga sem fór í göngu gegn hryðjuverkum eftir árásirnar í París í nóvember 2015. AFP

Deila vegna þjóðernis

Eftir árásirnar í París reyndi Hollande að breyta stjórnarskránni á þann veg að dæmdir hryðjuverkamenn myndu missa franskan ríkisborgararétt sinn ef þeir væru með tvöfaldan ríkisborgararétt.

Málið vakti harðar deilur vegna siðferðis og ákvað dómsmálaráðherrann Christiane Taubira að segja af sér embætti í mótmælaskyni.

Hollande hætti á endanum við áformin. Þegar hann tilkynnti seint á síðasta ári um að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri sagðist hann sjá mest eftir því að hafa staðið í þessu deilumáli sem forseti.  

Hollande í sjónvarpsávarpi 1. desember í fyrra.
Hollande í sjónvarpsávarpi 1. desember í fyrra. AFP

Umhverfissáttmáli

Hollande barðist grimmt fyrir því að Parísarsamkomulagið yrði samþykkt í desember. Hann segir það á meðal sinna helstu afreka í embætti.

Hollande í febrúar á þessu ári.
Hollande í febrúar á þessu ári. AFP

Hjónaband samkynhneigðra

Hollande hét því að allir fengju að ganga í hjónaband þegar hann var í forsetaframboði. Lög um hjónaband samkynhneigðra tóku gildi í apríl 2013, þrátt fyrir mótmæli tuga þúsunda manna.

Hollande ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Berlín á mánudag.
Hollande ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Berlín á mánudag. AFP

Upprisa Macron

Hollande var maðurinn á bak við uppgang Emmanuel Macron, sem tekur við af honum sem forseti Frakklands. Macron var fyrrverandi bankastarfsmaður í fjárfestingageiranum með enga reynslu í stjórnmálum þegar Hollande réð hann sem efnahagsráðgjafa. Macron fékk síðar sæti í ríkisstjórninni þegar Hollande skipaði hann efnahagsráðherra árið 2014.

En Macron sneri baki við Hollande og sagði skilið við ríkisstjórnina til að stofna sinn eigin stjórnmálaflokk, En Marche, eða Á hreyfingu. Það leiddi til þess að hann var kjörinn forseti Frakklands um síðustu helgi.

Hollande ásamt Emmanuel Macron.
Hollande ásamt Emmanuel Macron. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert