Fjöldi sjúkrahúsa í Bretlandi hefur orðið fyrir árás tölvuþrjóta í dag. Hafa einhver þeirra neyðst til að vísa sjúkrabifreiðum á aðrar heilbrigðisstofnanir og hvatt almenning til að hafa ekki samband við lækna sína.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisþjónustu landsins, en áður höfðu fjölmiðlar þar í landi fengið veður af árásunum.
Tölvuöryggismiðstöð Bretlands aðstoðar nú við rannsókn á árásunum, sem virðast vera af völdum spilliforrits sem nefnist „Wanna Decryptor“.
„Á þessu stigi vitum við ekki til þess að brotist hafi verið inn í sjúkraskrár,“ segir í tilkynningunni. „Árásinni var ekki aðeins beint að heilbrigðisþjónustunni heldur einnig að stofnunum í öðrum geirum.“