Yfir 480 flóttamönnum var bjargað á Miðjarðarhafinu í gær þegar þeir reyndu að komast yfir hafið frá Norður-Afríku. Sjö lík hafa fundist, samkvæmt upplýsingum frá ítölsku strandgæslunni í morgun.
Alls var 484 flóttamönnum bjargað af gúmmíbátum í fjórum aðgerðum sem ítalska strandgæslan tók þátt í ásamt ítalska hernum og áhafnir skipa hjálparsamtaka. Lík sjömenninganna fundust við björgunaraðgerðirnar.
Frá áramótum hefur yfir 45 þúsund manns verið bjargað á land í Ítalíu sem er 44% aukning frá sama tímabili í fyrra. 1.309 flóttamenn hafa drukkað á flóttanum, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðastofnuninni um fólksflutninga (IOM).
Flestir þeirra sem var bjargað í gær koma frá Nígeríu en auk þess voru flóttamenn frá Bangladess, Nýju-Gíneu og Fílabeinsströndinni. Hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa ógnað öryggi íbúa í norðurhluta Nígeríu og er talið að 2,6 milljónir hafi þurft að flýja heimili sín vegna ofbeldis af hálfu samtakanna. Yfir 20 þúsund manns hafa verið drepin af vígasveitunum.