Fyrst í EFTA og síðan ESB?

Nicola Sturgeon.
Nicola Sturgeon. AFP

Skotland gæti þurft að ganga fyrst í stað tímabundið í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) á leið sinni inn í Evrópusambandið komi til þess að landið lýsi yfir sjálfstæði frá Breska konungdæminu. Þetta segir Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands. Haft er eftir henni að með þessum hætti gæti Skotland verið áfram aðili að innri markaði sambandsins.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að ummæli Sturgeon komi í kjölfar vaxandi efasemda um Evrópusambandið á meðal skoskra kjósenda. Sturgeon og Skoski þjóðarflokkurinn sjái mögulega aðild að EFTA sem millileik á leiðinni að inngöngu í sambandið. Sturgeon hefur ítrekað að hún væri enn hlynnt inngöngu í Evrópusambandið.

Sturgeon segir að skoskir ráðamenn verði að setja fram áætlun um með hvaða hætti haldið verði í aðild að Evrópusambandinu eða hún endurheimt eftir því hvort Bretland gangi úr sambandinu eða ekki. Hugsanlega þyrfti að taka einhver milliskref til þess að ná því markmiði. Spurð hvort það þýddi inngöngu í EFTA fyrst og síðan í Evrópusambandið seinna segir hún:

„Við gætum neyðst til þess jafnvel þó að við vildum það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert