Yfirvöld í Hong Kong hafa hafnað hælisbeiðni hóps hælisleitenda, sem veittu uppljóstraranum Edward Snowden húsaskjól. Snowden er eftirlýstur af bandarískum stjórnvöldum fyrir að hafa lekið upplýsingum árið 2013 um víðtækar njósnir NSA.
Hælisleitendurnir, sem eru frá Srí Lanka og Filippseyjum skutu skjólshúsi yfir Snowden í hálfan mánuð eftir að hann flúði frá Bandaríkjunum.
BBC hefur eftir lögfræðingum hælisleitendanna að hælisbeiðni þeirra hafi verið synjað af því að lönd þeirra hafi verið metin örugg og sagði einn lögfræðinganna synjunina „óréttláta“.
Hópurinn hefur einnig óskað eftir hæli í Kanada og hefur nú 14 daga til að áfrýja ákvörðuninni áður en þeim verður vísað úr landi.
Hælisleitendurnir eru hjón frá Srí Lanka með tvö börn og filippseysk kona með eitt barn, en það var lögfræðingur þeirra, Robert Tibbo, sem kynnti þau fyrir Snowden.
Hann fór með Snowden heim til þeirra skömmu eftir að greint var frá lekanum og þar skutu þau húsaskjóli yfir hann í tvær vikur.
Stutt er síðan greint var frá því hverjir hefðu hýst Snowden og var það raunar ekki gert fyrr en skömmu áður en mynd Oliver Stone um uppljóstrarann var gefin út.