Stórvægilegar breytingar óraunhæfar

Merkel og Macron funda í Berlín í dag.
Merkel og Macron funda í Berlín í dag. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa gefið út viðvörun til Emmanuel Macron, nýkjörins forseta Frakklands, við því að ýta á eftir róttækum breytingum innan Evrópusambandsins, þar sem þeim þykir ekki raunhæft að gera nauðsynlegar breytingar á sáttmálum þess eins og stendur.

Macron hefur m.a. sagst fylgjandi aðskildum fjárlögum fyrir evrusvæðið og stungið upp á því að koma á fót sérstöku evruþingi og fjármálaráðherraembætti.

Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur bent á að stórvægar breytingar á borð við þessar kalli á breytingar á stofnsáttmálum sambandsins.

Friederike von Tiesenhausen, talskona þýska fjármálaráðuneytisins, ítrekaði í dag orð Junker og sagði breytingar á stofnsáttmálunum krefjast samþykkis allra aðildarríkja ESB, sem væri ekki raunhæft eins og stendur.

Þá sagði Martin Schaefer, talsmaður utanríkisráðuneytisins, að ríkisstjórnin þýska væri á einu máli um að í ljósi þeirra vandamála sem blöstu við í álfunni væri ekki hyggilegt að ráðast í sáttmálabreytingar.

Á sama tíma og fjölmiðlar í Þýskalandi hafa fagnað því að Macron skuli hafa lagt Marine Le Pen að velli í forsetakosningunum, hafa þeir varað við því að hugmyndir miðjumannsins kunni að verða Þjóðverkjum dýrkeyptar.

Í laugardagsútgáfu Der Spiegel var til að mynda að finna mynd af Macron undir fyrirsögninni „dýr vinur“.

Macron mun funda með Angelu Merkel í Berlín í dag. Það kvað við sáttartón hjá kanslaranum fyrir fundinn og sagði hún viðræðurnar myndu snúa að því hvað ríkin gætu gert saman, ekki því sem virkaði ekki.

Sagðist Merkel ekki þykjast vita allt best; hún hygðist ekki segja Frökkum fyrir verkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka