Saka stjórnvöld um þjóðarmorð

Aðgerðum stjórnvalda í Tsjet­sjen­íu hefur verið mótmælt víða um Evrópu, …
Aðgerðum stjórnvalda í Tsjet­sjen­íu hefur verið mótmælt víða um Evrópu, til að mynda í Berlín. AFP

Þrír franskir réttindahópar samkynhneigðra hafa sakað stjórnvöld í rússneska sjálfstjórnarlýðveldinu Tsjet­sjen­íu um að þar séu framin þjóðarmorð á samkynhneigðum karlmönnum. Hóparnir hafa sent alþjóðaglæpadómstólnum (ICC) kvörtun vegna þess.

Hóparnir kenna forseta Tsjetsjeníu, Ramzan Kadyrov, og embættismönnum um bylgju ofsókna.

Þeir bentu á mál þar sem unglingi var hent út um glugga á níundu hæð en talið er að það hafi verið gert vegna kynhneigðar hans. Frændi 17 ára pilts henti honum út um gluggann en frændinn sagðist vilja bjargað heiðri fjölskyldunnar. Pilturinn lést við fallið.

Ráðamenn í Tsjetsjeníu neita því staðfastlega að það sé samkynhneigt fólk í landinu.

Ut­an­rík­is­ráðherr­ar fimm landa hafa skrifað opið bréf til ut­an­rík­is­ráðherra Rúss­lands og hvetja til þess að brugðist verði við of­sókn­unum sem samkynhneigðir verða fyrir í Tsjetsjeníu. Frönsku réttindahóparnir telja það ekki nóg og vilja því að alþjóðaglæpadómstóllinn rannsaki málið.

Kadyrov, forseti Tsjetsjeníu, er sakaður um að hafa sett upp pyntingabúðir til að útrýma samkynhneigðum. Í síðustu viku voru fimm einstaklingar sem berjast fyrir réttindum samkynhneigðra handteknir í Moskvu þar sem þeir reyndu að koma áskorun til saksóknara.

Lögregla segir að mennirnir hafi verið handteknir vegna þess að aðgerðir þeirra hafi verið ólögmætar.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert