Le Drian verður utanríkisráðherra

Varnarmálaráðherrann Jean-Yves Le Drian verður utanríkisráðherra í ríkisstjórn Macron.
Varnarmálaráðherrann Jean-Yves Le Drian verður utanríkisráðherra í ríkisstjórn Macron. AFP

Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands, hefur lokið við að skipa í fyrstu ríkisstjórn sína. Sósíalistinn Jean-Yves Le Drian verður utanríkisráðherra og Evrópuþingmaðurinn Sylvie Goulard varnarmálaráðherra.

Aðrir einstaklingar sem áttu aðkomu að kosningabaráttu Macron fengu einnig veigamikil hlutverk; Gerard Collomb, borgarstjóri Lyon, mun sitja í innanríkisráðuneytinu og miðjumaðurinn Francois Bayrou í dómsmálaráðuneytinu.

Hægrimaðurinn Bruno Le Marie hefur verið skipaður efnahagsráðherra og er einn þriggja flokksmanna Repúblikanaflokksins sem tekur við ráðherradóm. Annar er Edouard Philippe, sem Macron fól forsætisráðherraembættið á mánudag.

Macron virðist ætla að standa við fyrirheit sín um að leita fanga sem víðast en til viðbótar við Le Drian, sem var varnarmálaráðherra í stjórnartíð Francois Hollande, skipaði forsetinn Annick Girardin í embætti úr röðum sósíalista. Hún mun fara með málefni yfirráðasvæða Frakka.

Athygli vekur að jafnmörg embætti féllu konum í skaut eins og körlum en aðeins eitt þeirra þykir meðal þeirra bitastæðustu; varnarmálaráðuneytið.

Laura Flessel, ólympíuverðlaunahafi í skylmingum, var skipuð í embætti íþróttamálaráðherra en konur fara einnig fyrir menningarmálaráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytinu, svo eitthvað sé nefnt.

Marielle de Sarnez verður ráðherra Evrópumála.
Marielle de Sarnez verður ráðherra Evrópumála. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka