Bandaríski hermaðurinn Chelsea Manning hefur verið látin laus úr fangelsi í dag eftir að hafa setið í sjö ár í fangelsi fyrir að hafa lekið hundruðum þúsunda skjala í eigu bandarískra stjórnvalda til uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks árið 2010.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að talsmaður Bandaríkjahers hafi staðfest að Manning hafi yfirgefið herfangelsið í Fort Leavenworth í Kansas-ríki. Manning var dæmd í 35 ára fangelsi af herdómstóli árið 2013 en hún var handtekin 2010. Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, mildaði dóminn yfir Manning í janúar.
Haft er eftir lögfræðingi Manning, Nancy Hollander, að skjólstæðingur hennar væri mjög spenntur en um leið væntanlega áhyggjufull. „Hún er reiðubúin að geta loksins lifað sem konan sem hún er,“ en Manning er transkona og hét áður Bradley Manning.
Manning, sem er 29 ára gömul, greindi frá því daginn eftir að hún var dæmd af herdómstólnum að hún hefði upplifað sig sem sem kvenkyns einstakling frá barnæsku og vildi lifa eftirleiðis sem kona undir nafninu Chelsea. „Ég sé nú í fyrsta sinn framtíð fyrir mér sem Chelsea,“ sagði hún í yfirlýsingu í síðustu viku.