Michael Flynn og aðrir ráðgjafar Donald Trump Bandaríkjaforseta áttu í samskiptum við rússneska embættismenn og einstaklinga sem tengdir eru ráðamönnum í Kreml í að minnsta kosti 18 skipti áður en Trump tók við embætti forseta. Reuters-fréttastofan segir um að ræða bæði símtöl og tölvupósta á sjö lokamánuðum forsetaframboðsins.
Heimildamenn Reuters eru bæði núverandi og fyrrverandi embættismenn bandarískra stjórnvalda. Upplýsingar um samskiptin eru hluti af þeim gögnum sem tilheyra rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI og rannsóknarnefndar þingsins á meintum tengslum framboðs Trumps og ráðamanna í Rússlandi.
Í sex skipti er um að ræða símtöl milli Sergei Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, og Michael Flynn og annarra ráðgjafa Trump. Trump gerði Flynn að þjóðaröryggisráðgjafa sínum er hann settist á forsetastól en rak hann síðan er fréttist af samskiptum hans við rússnesk stjórnvöld.
Reuters segir að samskipti Flynn og Kislyaks hafi orði tíðari eftir að Trump var kjörinn forseti 8. nóvember í fyrra. Eru þeir tveir sagðir hafa rætt bakleiðir til að koma á samskiptum milli Trumps og Valdimír Pútins Rússlandsforseta sem gætu komist undir radarinn hjá þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna. Hefur Reuters eftir fjórum núverandi embættismönnum að þeir Flynn og Kislyak hafi verið sammála um að þjóðaröryggisstofnunin væri mótfallin bættum tengslum.
Forsetaskrifstofa Trumps í Hvíta húsinu neitaði því í janúar að einhver samskipti hefðu verið við Rússa áður en Trump tók við embætti, en játaði síðan að Kislyak og ráðgjafar forsetans hefðu hist í fjórgang. Jeff Sessions, sem Trump gerði að dómsmálaráðherra, er sagður hafa hitt Kislyak í tvígang.