Danski þjóðarflokkurinn vill láta setja upp gaddavírsgirðingar á landamærum Danmerkur og Þýskalands og að hreyfiskynjurum verði komið fyrir. Fulltrúar flokksins heimsóttu nýverið landamærin á milli Ungverjalands og Serbíu til þess að kynna sér hvernig staðið er að öryggismálum þar, segir í frétt Politiken.
Danski þjóðarflokkurinn er annar stærsti stjórnmálaflokkurinn í Danmörku með 37 þingsæti af 179. Þrátt fyrir að eiga ekki aðild að ríkisstjórn Venstre, Íhaldsflokksins og Frjálslynda bandalagsins ver hún hana falli.
Auk þess að hafa sett upp háar gaddavírsgirðingar á landamærunum hneppa Ungverjar hælisleitendur í varðhald í lokuðum búðum um ótilgreindan tíma á meðan verið er að fara yfir hælisumsókn þeirra og meta. Anders Vistisen, sem er þingmaður á Evrópuþinginu fyrir hönd danska þjóðarflokksins, telur að Danir eigi að fara að fordæmi Ungverja og beita sömu aðferðum og Ungverjar á landamærum Serbíu.
Vistisen segir í samtali við Politiken að flokkurinn sé mjög spenntur fyrir því sem flokksfélagar sáu og upplifðu í Ungverjalandi. Um fyrirmynd sé að ræða að því sem flokkurinn telji að eigi að setja upp á landamærum Danmerkur og Þýskalands. Gaddavírsgirðingin yrði þrír metrar á hæð, með hreyfiskynjurum og öryggismyndavélum.
Þingmenn á Evrópuþinginu sem og fulltrúar margra alþjóðlegra samtaka hafa harðlega gagnrýnt aðbúnað í Ungverjalandi. Meðal annars telur Útlendingastofnun Danmerkur (Flygtningenævnet) aðstæður í Ungverjalandi þannig að Danmörk sendir ekki flóttafólk sem er vísað úr landi þangað.
„Það er ekki boðið upp á neinn munað á nokkurn hátt en aðstæðurnar eru fullkomlega í takt við tilganginn, sem er að halda fólki í varðhaldi þangað til hælisumsókn þeirra hefur verið tekin fyrir,“ segir Vistisen í samtali við Politiken.
Vistisen segir í viðtalinu við Politiken að ef Þjóðverjar setja sig uppi á móti slíku eftirliti og varnaraðgerðum á landamærunum verði þeir bara að gæta eigin landamæra betur.