Vilja reisa gaddavírsgirðingu á landamærunum

Landamæri Ungverjalands.
Landamæri Ungverjalands. AFP

Danski þjóðarflokk­ur­inn vill láta setja upp gadda­vírs­girðing­ar á landa­mær­um Dan­merk­ur og Þýska­lands og að hrey­fiskynj­ur­um verði komið fyr­ir. Full­trú­ar flokks­ins heim­sóttu ný­verið landa­mær­in á milli Ung­verja­lands og Serbíu til þess að kynna sér hvernig staðið er að ör­ygg­is­mál­um þar, seg­ir í frétt Politiken.

Danski þjóðarflokk­ur­inn er ann­ar stærsti stjórn­mála­flokk­ur­inn í Dan­mörku með 37 þing­sæti af 179. Þrátt fyr­ir að eiga ekki aðild að rík­is­stjórn Ven­stre, Íhalds­flokks­ins og Frjáls­lynda banda­lags­ins ver hún hana falli.

Auk þess að hafa sett upp háar gadda­vírs­girðing­ar á landa­mær­un­um hneppa Ung­verj­ar hæl­is­leit­end­ur í varðhald í lokuðum búðum um ótil­greind­an tíma á meðan verið er að fara yfir hæl­is­um­sókn þeirra og meta. And­ers Vistisen, sem er þingmaður á Evr­ópuþing­inu fyr­ir hönd danska þjóðarflokks­ins, tel­ur að Dan­ir eigi að fara að for­dæmi Ung­verja og beita sömu aðferðum og Ung­verj­ar á landa­mær­um Serbíu.

Vistisen seg­ir í sam­tali við Politiken að flokk­ur­inn sé mjög spennt­ur fyr­ir því sem flokks­fé­lag­ar sáu og upp­lifðu í Ung­verjalandi. Um fyr­ir­mynd sé að ræða að því sem flokk­ur­inn telji að eigi að setja upp á landa­mær­um Dan­merk­ur og Þýska­lands. Gadda­vírs­girðing­in yrði þrír metr­ar á hæð, með hrey­fiskynj­ur­um og ör­ygg­is­mynda­vél­um.

Þing­menn á Evr­ópuþing­inu sem og full­trú­ar margra alþjóðlegra sam­taka hafa harðlega gagn­rýnt aðbúnað í Ung­verjalandi. Meðal ann­ars tel­ur Útlend­inga­stofn­un Dan­merk­ur (Flygtn­ingenæv­net) aðstæður í Ung­verjalandi þannig að Dan­mörk send­ir ekki flótta­fólk sem er vísað úr landi þangað.

„Það er ekki boðið upp á neinn munað á nokk­urn hátt en aðstæðurn­ar eru full­kom­lega í takt við til­gang­inn, sem er að halda fólki í varðhaldi þangað til hæl­is­um­sókn þeirra hef­ur verið tek­in fyr­ir,“ seg­ir Vistisen í sam­tali við Politiken.

Vistisen seg­ir í viðtal­inu við Politiken að ef Þjóðverj­ar setja sig uppi á móti slíku eft­ir­liti og varn­araðgerðum á landa­mær­un­um verði þeir bara að gæta eig­in landa­mæra bet­ur.

 Politiken

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka