Ungur maður, sem áður trúði á yfirburði hvíta kynstofnsins en snerist til íslam nýverið, hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt tvo félaga sína fyrir að vera nýnasistar og vanvirða trú hans.
Devon Arthurs, sem er 18 ára gamall, var handtekinn á föstudag eftir að hafa játað að hafa myrt tvo samleigjendur sína í Tampa í Flórída en hann var handtekinn þar sem hann hélt þremur í gíslingu í verslun í nágrenninu. Þar játaði hann fyrir lögreglu að hafa framið tvöfalt morð og vísaði lögreglu á íbúðina þar sem hann bjó ásamt þremur öðrum ungum mönnum. Mennirnir áttu það allir sameiginlegt að vera nýnasistar.
Að sögn Arthurs myrti hann Jeremy Himmelman, 22 ára, og Andrew Oneschuk, 18 ára, fyrir að vanvirða nýja trú hans. Þegar lögregla kom í íbúðina fann hún Brandon Russel, 21 árs, þar fyrir utan hágrátandi í hermannaklæðnaði. Lögregla fann efni til sprengjugerðar í herbergi Russels en þar var áróður nýnasista á öllum veggjum og innrömmuð mynd af hryðjuverkamanninum Timothy McVeigh.
McVeigh myrti 168 manns í sprengjutilræði í Oklahoma-borg árið 1995 og var tekinn af lífi árið 2001.
Russell var síðan handtekinn á laugardag fyrir að undirbúa sprengjutilræði. Að sögn bandarísku alríkislögreglunnar játaði Russel að vera ný-nasisti og að hann væri félagi í samtökum sem nefnast Atomwaffen.
Arthurs sagði við lögreglu að þangað til fyrir stuttu hafi hann deilt hugmyndafræði félaga sinna um yfirburði hvíta kynstofnsins.