Yfirvöld víða um heim skoða eftir hryðjuverkaárásina í Manchester í Bretlandi í gær hvernig bæta megi öryggisaðgerðir á fjölmennum viðburðum á borð við íþróttaleiki og tónleika. 22 fórust og 59 særðust í sjálfsvígsárás á tónleikum bandarísku söngkonunnar Ariana Grande í Manchester Arena tónleikahöllinni í gærkvöldi.
Götublaðið Daily Mail segir að þó margir hafi lýst yfir undrun á því hvernig sjálfsvígsmaðurinn komst með sprengjuna í gegnum öryggisleit, hafa sumir tónleikagestir og þeir sem sótt hafa fyrri viðburði í tónleikahöllinni gagnrýnt lélega öryggisgæslu.
„Ég var á Manchester Arena og þeir skoða bara töskuna, hvers sem er getur gengið inn með eitthvað undir frakkanum,“ sagði ein kona á Twitter.
Annar Twitter notandi benti á að ekkert málmleitartæki væri við inngang tónleikahallarinnar að Victoria lestarstöðinni, né heldur væri leitað þar á fólki. Árásin í gær átti sér stað í anddyri tónleikahallarinnar, við þeim megin sem gengið er út á lestarstöðina.
Þriðji Twitter notandinn vakti þá athygli á því að ekki hefði heldur verið leitað í tösku hans á þremur síðustu viðburðum sem hann hefði sótt í Manchester Arena. Þá hefur Daily Mail eftir tveimur tónleikagestum, 18 og 19 ára, að ekki hafi verið leitað á þeim er þeir komu á tónleika Grande í gærkvöldi.
Reuters fréttastofan segir yfirvöld í Bretlandi hafa verið á næst hæsta viðbúnaðarstigi vegna mögulegrar árásar áður en árásin var gerð í gærkvöldi.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið segist fylgjast vel með málinu og að vera kunni að áhorfendur á bandarískum viðburðum kunni að upplifa auknar öryggisaðgerðir í kjölfarið. Það sama sögðu japönsk yfirvöld. „Við erum að styrkja stöðu okkar með því að koma á fót upplýsingateymi sem er sérhæft í því að safna upplýsingum um alþjóðleg hryðjuverk,“ sagði Yoshihide Suga talsmaður japönsku stjórnarinnar í samtali við Reuters.
Þá sögðu skipuleggjendur tónleika sem Britney Spears heldur í Singapore í júní að þeir væru að skoða að auka öryggisaðgerðir þar. Sama sögðu stjórnendur tónleikahallar í Hong Kong þar sem Ariana Grande á að halda tónleika í september. Auk hefðbundinnar töskuskoðunar, þá verði komið upp málmleitartækjum og þá verði hundar fengnir til að leita að grunsamlegum munum á þessum og öðrum viðburðum í húsinu.