Breska lögreglan telur að Salman Abedi, sem framdi sjálfsmorðsárásina í Manchester í Bretlandi á mánudagskvöldið, hafi meðal annars notað námslán og bætur frá hinu opinbera til þess að fjármagna hryðjuverkið. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en þar segir að Abedi hafi fengið greiddar þúsundir punda frá hinu opinbera í aðdraganda hryðjuverksins sem kostaði 22 lífið.
Fram kemur í fréttinni að Abedi hafi fengið greiðslurnar jafnvel á meðal hann var erlendis að læra að smíða sprengju. Lögreglan er að rannsaka fjármál Abedis. Þar á meðal er verið að skoða með hvaða hætti hann fjármagnaði ítrekaðar ferðir til Líbíu þar sem talið er að hann hafi fengið þjálfun í að smíða sprengjur hjá íslamistum. Athugun á fjármálum Abedis er stór hluti af rannsókn lögreglunnar segir enn fremur í fréttinni.
Málið hefur vakið upp umræðu um það með hvaða hætti íslamistar hafa misnotað opinberar greiðslur til þess að fjármagna hryðjuverk. Haft er eftir fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni að íslamistar skráðu sig í háskólanám til þess að geta sótt um námslán án þess að hafa í hyggju að stunda námið. Abedi fékk greidd 7 þúsund pund í námslán eftir að hafa skráð sig í viðskiptanám við Salford-háskóla í október 2015.
Talið er að Abedi hafi einnig fengið 7 þúsund pund greidd á síðasta ári jafnvel þótt hann hafi þá verið hættur náminu. Fram kemur í fréttinni að Salfod-háskóli hafi neitað að svara því hvort hann hafi upplýst lánveitandann, sem er opinber lánasjóður, um að Abedi væri hættur náminu. Talið er einnig að hann hafi fengið greiddar ýmsar opinberar bætur 2015-2016 en vinnumálaráðuneyti Bretlands hefur neitað að staðfesta það.
Vinir og nágrannar Abedis segja að hann hafi aldrei verið í fastri vinnu og fyrir vikið getað ferðast reglulega til Líbíu. Talið er að hann hafi vegna þessara greiðslna haft nægt fé til þess að undirbúa hryðjuverkið. Hann hafi meðal annars millifært 2.500 pund til yngri bróður síns í Líbíu sem talið er að hafi verið að undirbúa eigið hryðjuverk og hafi vitað um fyrirætlanir Abedis. Þá hafi Abedi getað leigt ýmsar fasteignir í Manchester sem hafi verið liður í að undirbúa hryðjuverkið.