Handabandið fór úr böndunum

Þegar þjóðarleiðtogarnir tveir hittust á fundi í gær áttu þeir …
Þegar þjóðarleiðtogarnir tveir hittust á fundi í gær áttu þeir nokkurra sekúndna langt handaband, þar sem hvorugur virtist ætla að gefa eftir. AFP

Segja má að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafi tekist á síðustu daga. Hafa átökin snúist um það hvor er þrjóskari þegar þeir takast í hendur.

Handaband Trumps hefur áður vakið athygli, en hann virðist oft grípa harkalega í fólk sem hann tekur í hendurnar á og jafnvel halda í það óvenjulega lengi. Macron virðist hins vegar taka þessu sem áskorun og gefur Trump ekkert eftir. 

Þegar þjóðarleiðtogarnir tveir hittust á fundi í gær áttu þeir nokkurra sekúndna langt handaband, þar sem hvorugur virtist ætla að gefa eftir. Trump sleppti þó á endanum, en Macron hélt enn fast. Hafa fjölmiðlar vestanhafs fjallað um að með þessu hafi Macron hugsanlega verið að senda Trump skilaboð, en í baráttunni um forsetaembættið í Frakklandi fyrir skömmu lét Trump þau orð falla að Marine Le Pen, mótframbjóðandi Macrons, væri hæfasti frambjóðandinn.

Síðar í gær virtist Macron hunsa Trump með því að ganga fyrst til Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, þegar hann mætti þeim og öðrum þjóðarleiðtogum. Svaraði Trump til baka með því að taka harkalega í hönd Macrons og kippa honum til. 

Fjölmargir hafa tjáð sig um handabandið á samfélagsmiðlum síðasta sólarhringinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert