Fjórtán eru í haldi lögreglunnar í Bretlandi í tengslum við árásina í Manchester fyrir viku. Í nótt var 23 ára karlmaður handtekinn í Shoreham-by-Sea, West Sussex, grunaður um að hafa gerst brotlegur við hryðjuverkalög.
Lögreglan í Manchester og nágrenni hefur einnig fengið heimild til húsleitar á fleiri stöðum í Whalley Range-svæðinu í Manchester og Chester.
Breska leyniþjónustan, MI5, rannsakar hvernig tekið var á viðvörunum frá almenningi um Salman Abedi innanhúss hjá stofnuninni en Abedi framdi sjálfsvígsárás í tónleikahöllinni í Manchester á mánudagskvöldið. Ítrekað hafi verið tilkynnt um hann til leyniþjónustunnar vegna öfgafullra skoðana hans. Í þrígang hið minnsta var tilkynnt um hann og öfgafull viðhorf hans.
Í gær voru tveir menn handteknir í Manchester, 19 ára maður í Gorton og 25 ára maður í Old Trafford.
Alls eru því 16 í haldi lögreglu í Bretlandi og Líbýu í tengslum við árásina en faðir og bróðir árásarmannsins eru í haldi lögreglu í Líbýu.
Rannsókn MI5 miðar að því að finna út hvernig fyrirfórst hjá stofnuninni að fylgjast með Abedi auk þess sem unnið er að sérstakri skýrslu um mistök í starfsemi stofnunarinnar fyrir ráðherra.
Abedi fæddist í Manchester en báðir foreldrar hans eru frá Líbýu. Þegar Abedi var 16 ára barðist hann með föður sínum gegn Muammar Gaddafi, einræðisherra í Líbýu, þegar hann var í skólaleyfi. Eins hafa tveir fyrrverandi skólabræður Abedi staðfest að hafa tilkynnt um hann til yfirvalda vegna öfgafullra skoðana hans.