Macron og Pútín skiptust á skoðunum

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Emmanuel Macron Frakkklandsforseti funduðu í Versölum …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Emmanuel Macron Frakkklandsforseti funduðu í Versölum í dag. AFP

Notkun efnavopna í Sýrlandi eru mörkin sem frönsk stjórnvöld vilja ekki að sé farið yfir og mun notkun þeirra leiða til refsiaðgerða. Þetta sagði Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands, á  fyrsta fundi sínum með Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

„Öll notkun efnavopna mun leiða til refsiaðgerða og verður svarað samstundis, að minnsta kosti hvað Frakkland varðar,“ sagði Macron á fundi sem þeir Pútín héldu með fréttamönnum. Macron bætti síðan við, að sögn Reuters, að takmark sitt væri að berjast gegn hryðjuverkum í landinu og að hann vildi vinna með Pútín að því markmiði.

Stjórnvöld í Frakklandi og Rússlandi styðja sitt hvora fylkinguna í Sýrlandsstríðinu, Rússar styðja stjórn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, en frönsk stjórnvöld hafa stutt bandalag uppreisnarmanna sem hafa sakað Assad um að nota efnavopn gegn sér.

Kvaðst Macron heiðarleg skoðanaskipti hafa átt sér stað á milli þeirra Pútín og að þeir hefðu tjáð sig um ýmis mál sem þeir væru ósammála um. Hann vilji þó engu að síður vinna með Rússum að baráttunni gegn hryðjuverkum í Sýrlandi. Þá kvaðst Pútín vilja styrkja efnahagstengsl Rússlands og Frakklands eftir efnahagsþvinganir undanfarinna ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert