3 sleppt úr haldi Manchester-lögreglu

Lögregla stendur vörð á meðan húsleit er gerð í tengslum …
Lögregla stendur vörð á meðan húsleit er gerð í tengslum við rannsókn málsins.

Lögreglan í Manchester lét í dag lausa úr haldi þrjá þeirra sem handteknir voru í tengslum við hryðjuverkaárásina á tónleikum söngkonunnar Ariönu Grande í Manchester Arena-tónleikahöllinni í síðustu viku. 11 manns eru enn í haldi lögreglunnar í Bretlandi vegna rannsóknar málsins.

22 létust í árásinni og tugir slösuðust. 

Fréttastofa AFP segir tvo þeirra, sem voru látnir lausir, hafa verið handtekna í suðurhluta Manchester síðasta miðvikudag, skammt frá þar sem árásarmaðurinn Salman Abedi bjó. Nokkru síðar var maður á fertugsaldri, sem handtekinn hafði verið í Blackey í norðurhluta Manchester, einnig látinn laus án ákæru.

„Það er við því að búast í rannsókn sem þessari að sumir hinna handteknu séu látnir lausir eftir að við erum búin að sannreyna þær upplýsingar sem við höfum fengið,“ hefur AFP eftir Russ Jackson, yfirmanni hryðjuverkasveitar lögreglunnar.

Faðir og bróðir Abedis voru hnepptir í varðhaldi í Líbýu og segja yfirvöld þar í landi að bræðurnir hafi báðir verið liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, sem lýst hefur yfir ábyrgð á árásinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert