Justin Bieber, Coldplay og Katy Perry eru á meðal þeirra sem munu kom fram á styrktartónleikum Ariönu Grande, sem hún hyggst halda á sunnudaginn næstkomandi í Manchester.
Tónleikarnir bera yfirskriftina „One Love“ eða Ein ást, og er ætlað að afla fjár fyrir fjölskyldur fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar sem gerð var í lok tónleika Grande í Manchester Arena-tónleikahöllinni fyrir viku síðan. 22 létust í árásinni og 116 særðust.
Fjölmargir tónlistarmenn og hljómsveitir munu koma fram á tónleikunum. Auk fyrrgreindra má nefna Take That, Miley Cyrus, Pharrell, Usher og Niall Horan. Tónleikarnir munu fara fram á Old Trafford krikketvellinum.
Grande hefur boðið öllum þeim sem voru á tónleikunum hennar síðastliðinn mánudag í Manchester fría miða á styrktartónleikana. Alls tekur völlurinn um 50 þúsund manns og verða tónleikarnir einnig sýndir í beinni útsendingu á BBC.
Sala á miðum á tónleikana hefst á fimmtudag. Mun allur ágóði renna til We Love Manchester styrktarsjóðsins sem var stofnaður eftir árásina. Áætlað er að um 2 milljónir punda muni safnast, eða um 250 milljónir króna. Hafa þeir sem hyggjast mæta verið beðnir um að koma ekki með töskur.
Í yfirlýsingu sem Grande birti á Twitter fyrir nokkrum dögum sagði hún að svarið við árásinni yrði að vera það að „standa saman, hjálpa hvert öðru, elska meira, syngja hærra og vera vingjarnlegri og örlátari en við vorum áður.“
Þar sagðist hún vilja gera allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa aðdáendum sínum sem lentu í árásinni og fjölskyldum þeirra. „Við munum ekki hætta eða láta óttann stjórna okkur. Við munum ekki láta þetta sundra okkur. Við munum ekki láta hatrið vinna,“ skrifaði hún. „Ég vil ekki að þetta ár líði án þess að ég geti séð og upphafið aðdáendur mína á sama hátt og þeir upphefja mig.“