Björt: Vonbrigði að þjóðarleiðtogi hagi sér svona

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir aðra þétta raðirnar við ákvörðun Bandaríkjaforseta.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir aðra þétta raðirnar við ákvörðun Bandaríkjaforseta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru auðvitað vonbrigði að þjóðarleiðtogi hagi sér svona og með samkomulag sem var gert á mjög breiðum grundvelli.“ Þetta segir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra um þá ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Hún kveðst þess hins vegar fullviss að þetta muni ekki letja íslensk stjórnvöld við að uppfylla samkomulagið.

Þegar Trump tilkynnti nú í kvöld að Bandaríkin segi sig hér með frá Parísarsamkomulaginu, sagði hann þau einnig muna hefja viðræður um að ná nýrri og hagstæðari inngöngu að Parísarsamkomulaginu. Björt kveðst telja hæpið að Trump ætli í raun að reyna að semja sig aftur inn.

„Hins vegar ef við lítum til þess hvað atvinnulífið í Bandaríkjunum er að gera, t.d. í Kaliforníuríki og Flórída og þá sjáum við alveg hver viljinn er þar,“ segir hún. Þar sjáist vel vilji atvinnugreina til að láta fyrirtæki vinna í samræmi við loftslagsmarkmiðin, enda geri menn sér grein fyrir því að þetta sé það sem neytendur vilji.

Vongóð á innri mótspyrnu gegn Trump

„Þannig að þessar atvinnugreinar hafa verið að mótmæla Trump og það veitir mér von um að heilt land sé ekkert að fara að hætta við að draga úr losun,“ sagði Björt.  Bandaríkjaforseti hafi hreinlega ekki það vald yfir þeim atvinnugreinum sem séu meðvitaðar um þessi málefni.

„Ég er vongóð á innri mótspyrnu og mótspyrnu sem felst í því að þessir atvinnuvegir taki til sín þessa ábyrgð og dragi sjálfir úr losun, þó að það sé ekki stjórnvaldsákvörðun.“

Kín­versk­ir og evr­ópsk­ir ráðamenn sendu frá sér sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu í gær um að þau taki við for­yst­unni og að þau muni leggja sig fram af öll­um mætti við að upp­fylla Par­ís­arsátt­mál­ann, til að fylla í skarð Banda­ríkja­manna. Björt segir þetta líka veita sér von og hún sé ánægð með þessa afstöðu.

Aðrir fastari fyrir bakki Trump út

„Trump er einn þjóðarleiðtogi af mörgum, þó vissulega stýri hann landi sem hafi áhrif og sé stórt í þessum samanburði,“ segir hún. „Aðrir þjóðarleiðtogar og önnur lönd, eins og Kína, eru hins vegar þétta raðirnar. Þau eru að stilla saman strengi og eru að taka enn ákveðnari skref og stíga enn fastar til jarðar í því að segja að þessir hlutir skipti gríðarlega miklu máli og ef að Trump ætli að bakka út þá þýði það bara að við þurfum að vera enn fastari fyrir.“

Forsætisráðherrar Norðurlandanna hafi stigið skref í þessa átt er þeir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu áður en Trump tilkynnti ákvörðun sína, þar sem hann var hvattur til að stíga ekki þetta skref.

„Þannig að eins og ég sagði áðan þá er alveg ljóst að aðrir eru að þétta raðirnar og stilla saman strengi og eru enn ákveðnari í því að láta loftslagsmarkmiðin ná fram að ganga,“ sagði Björt. Það sama gildi um íslensk stjórnvöld sem séu enn ákveðnari í sinni afstöðu til málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka