Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að Bandaríkin muni ekki standa við Parísarsamkomulagið. Þetta tilkynnti forsetinn á fundi fyrir utan Hvíta húsið nú fyrir skemmstu.
Varaforsetinn Mike Pence sagði, áður en Trump las yfirlýsingu sína, að Trump væri með gjörðum sínum að setja Bandaríkin í fyrsta sæti, þar með talið hina gleymdu Bandaríkjamenn.
Vísaði Trump í ræðu sinni til þeirra kosningaloforða sem hann hefði þegar tekið til við að efna. Hann vildi ekki að neitt stæði í veginum fyrir að framhald yrði þar á. „Þess vegna, til þess að efna loforð mitt, þá munu Bandaríkin draga sig út úr Parísarsáttmálanum,“ sagði Trump og uppskar lófatak viðstaddra.
„Við erum að fara út en við munum hefja viðræður um að ganga aftur inn í Parísarsamkomulagið á sanngjarnari skilmálum fyrir bandarísku þjóðina og ef það tekst þá er það frábært.“
Fjölmiðlar hafa fjallað um það undanfarna daga að útlit væri fyrir að Trump myndi staðfesta Parísarsáttmálann, en evrópskir ráðamenn G7 ríkja þrýstu hart á forsetann á fundi ríkjanna í síðustu viku að virða samkomulagið.
Kínverskir og evrópskir ráðamenn sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær um að ESB taka við forystunni og að þau muni leggja sig fram af öllum mætti við að uppfylla Parísarsáttmálann, til að fylla í skarð Bandaríkjamanna, ákveði Trump að staðfesta ekki sáttmálann, líkt og flest bendir til.
Fréttavefurinn Politico birti fyrr í dag skjal, sem það sagði vera helstu ástæður sem stjórn Trumps gæfi fyrir því að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu.
Þar er Parísarsamkomulagið sagt vera slæmur samningur fyrir Bandaríkjamenn og að með því að draga sig út úr samkomulaginu þá sé Trump að efna það kosningaloforð sitt að setja Bandaríkin í fyrsta sæti.
Stjórn Barack Obama, forvera Trump, hafi staði illa að samningnum og undirritað hann af tómri örvæntingu.
Er kostnaður og áhrif samningsins á efnahag og fjölgun starfa sögð ein helsta ástæðan. Bandaríkin séu þegar fremst í flokki orkuframleiðenda og þurfi ekki á slæmum samningi að halda sem komi bandarísku verkafólki illa. Þá er samkomulagið einnig sagt gera lítið til bóta fyrir loftslagsbreytingar í heiminum.