Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkjastjórn muni áfram freista þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þrátt fyrir ákvörðun Donald Trump um að segja Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu um aðgerðir í loftslagsmálum.
Ummælin lét Tillerson falla þegar hann tók á móti Aloysio Nunes, utanríkisráðherra Brasilíu, í Washington. Sagði hann Bandaríkin hafa staðið sig „frábærlega“ við að draga úr losun.
Ráðherrann virtist vera að svara gagnrýni annarra þjóðarleiðtoga þegar hann hvatti bandamenn til að sjá hlutina í „réttu samhengi“.
Fregnir herma að Tillerson sé einn þeirra ráðgjafa Trump sem ráðlögðu forsetanum að halda sig við Parísarsamkomulagið. Er hann sagður hafa óttast að ef Bandaríkjamenn segðu sig frá samkomulaginu myndu áhrif þeirra á hinu alþjóðlega sviði minnka.
Það var þó engan bilbug að finna á ráðherranum þegar hann ávarpaði blaðamenn í dag og sagði hann ákvörðunina snúast um stefnumótun.
„Ég tel mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að Bandaríkin hafa staðið sig frábærlega í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er eitthvað sem ég tel okkur geta verið stolt af og það gerðist án þess að Parísarsamkomulagsins nyti við,“ sagði Tillerson.
Hann sagði Bandaríkjamenn ekki hyggjast snúa frá þeirri stefnu.