Viðbrögðin við ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál hafa verið hörð. Bæði heima fyrir og erlendis. Trump hefur réttlætt ákvörðun sína með því að samkomulagið sé ekki í þágu bandarískra hagsmuna og að hann hyggist endursemja um aðild Bandaríkjanna að því.
Forystumenn Þýskalands, Frakklands og Ítalíu hafa lýst því yfir að ekki sé mögulegt að semja upp á nýtt um aðild Bandaríkjanna að samkomulaginu. Þýsk stjórnvöld hafa sakað Trump um að skaða plánetuna og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði ákvörðun forsetans vera ranga.
Trump hefur einnig verið gagnrýndur af forvera sínum í embætti, Barack Obama, sem sagði Bandaríkin með þessu ganga til liðs við fáein ríki sem „höfnuðu framtíðinni“. Fram kemur í frétt AFP að einungis tvö ríki eigi ekki aðild að Parísarsamkomulaginu; Níkaragva og Sýrland.
Hillary Clinton, sem keppti við Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á síðasta ári, sagði ákvörðun forsetans „söguleg mistök“. Bandaríkjamenn yrðu á jaðrinum á sama tíma og ríki heimsins tækju höndum saman í loftslagsmálum.
Ríkisstjórar bandarísku ríkjanna New York, Kaliforníu og Washington, sem allir eru demókratar, hafa lýst því yfir að þeir ætli að fara eftir Parísar-samkomulaginu óháð ákvörðun Trumps. Sumar byggingar í New York-borg, líkt og One World Trade Center og ráðhús borgarinnar, voru baðaðar grænu ljósi til þess að sýna samkomulaginu stuðning.