Tæknirisarnir harma ákvörðun Trump

Mark Zuckerberg er meðal þeirra tæknileiðtoga sem harma ákvörðun forsetans.
Mark Zuckerberg er meðal þeirra tæknileiðtoga sem harma ákvörðun forsetans. AFP

Ákvörðun Donald Trump um að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu „ógnar framtíð barnanna okkar,“ segir Mark Zuckerberg, stofnandi og framkvæmdastjóri Facebook. Fjölmörg áhrifamikil tæknifyrirtæki hafa mótmælt ákvörðun forsetans, þeirra meðal Apple, Google, Twitter, Amazon, Tesla, Microsoft og IBM.

Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, sagði ákvörðunina ranga fyrir plánetuna og Jack Dorsey, framkvæmdastjóri Twitter, sagði hana „skammsýna“ og „skref afturábak fyrir alríkisstjórnina.“ Dorsey endurtísti einnig nokkrum mótmælatístum, þeirra á meðal skilaboðum frá Emmanuel Macron Frakklandsforseta, sem báru yfirskriftina Make Our Planet Great Again.

Mörg stórfyrirtæki hafa heitið því að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, óháð afstöðu stjórnvalda. Zuckerberg sagði Facebook stefna að því að reka öll gagnaver sín með endurnýjanlegum orkugjöfum. Allir þyrftu að leggjast á eitt í loftslagsbaráttunni.

Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla og SpaceX, stóð við stóru orðin og sagði sig úr tveimur ráðgjafanefndum forsetans. Sundar Pichai, framkvæmdastjóri Google, sagði ákvörðun Trump vonbrigði og hét því að Google myndi ekki láta sitt eftir liggja.

Elon Musk hefur sagt sig úr ráðgjafanefndum forsetans.
Elon Musk hefur sagt sig úr ráðgjafanefndum forsetans. AFP

Brad Smith, forseti Microsoft, sagði að fyrirtækið hefði verið „staðfastur stuðningsaðili“ Parísarsamkomulagsins“ og því væri ákvörðun Hvíta hússins vonbrigði. Hann sagði fyrirtækið hafa unnið að því mánuðum saman að fá forsetann til að standa við samkomulagið, án árangurs.

Í yfirlýsingu frá IBM sagði að fyrirtækið styddi aðkomu Bandaríkjanna að Parísarsamkomulaginu. Framkvæmdastjórinn Ginni Rometty hygðist hins vegar halda sæti sínu í einni ráðgjafanefnda Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert