Breska lögreglan hafði verið vöruð fyrir tveimur árum við einum mannanna sem taldir eru hafa staðið fyrir árásinni í London í gærkvöldi að því er fram kemur á vef Guardian.
Húsleit hefur verið gerð í dag í íbúð Barking hverfinu í Austur-London, sem var í eigu eins árásarmannanna, og hefur BBC haft eftir nágrönnum mannsins að hann hafi búið í húsinu í um þrjú ár og verið kvæntur tveggja barna faðir.
Guardian hefur eftir Ericu Gasparri, ítalskri þriggja barna móður sem var nágranni mannsins að segist hún hafi rætt við manninn, sem nágrannarnir kalla Abs, eftir að sonur hennar kom heim og kvaðst vilja gerast múslimi.
Gasparri kveðst þá hafa farið út í húsagarðinn þar sem hún segir „Pakistanskan mann“ hafa fullyrt: „Ég er tilbúinn að gera hvað sem er í nafni Allah. Ég er tilbúinn í nafni Allah að gera það sem gera þarf, jafnvel að drepa mína eigin móður.“
Hún segist í kjölfarið hafa tekið fjórar myndir af manninum og afhent þær lögreglu. „Þeir höfðu samband við Scotland Yard á meðan að ég var þar og sögðu mér að upplýsingunum hefði verið komið áfram til þeirra. Þeir höfðu miklar áhyggjur og sögðu mér að eyða myndunum öryggis míns vegna, sem að ég gerði, en svo heyrði ég ekkert. Það var fyrir tveimur árum síðan. Enginn kom til mín. Ef þeir hefðu gert það þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta og hægt hefði verið að bjarga mannslífum,“ sagði Gasparri.
Maðurinn hefði rætt við aðra um islamstrú í húsagarðinum. Hún kvaðst hafa sagt öðrum nágrönnum frá því sem hún hefði talað við lögreglu og að pólsk kona í húsinu hefði látið manninn vita. „Í dag kom sú kona til mín og sagðist þykja þetta leitt: „Ég vissi ekki að hann var vondur maður. Kannski var ég blind,“ rifjar Gasparri upp.“
Guardian hefur eftir Lundúnalögreglunni að hún viti um ásakanirnar, en að hún tjái sig ekki um málið á þessu stigi þar sem ekki hafi verið birtar upplýsingar um árásarmennina eða þá sem handteknir hafa verið í dag í tengslum við rannsókn málsins.
Lögregla hefur staðið fyrir húsleit í dag, m.a. í Barking, þar sem 12 hafa verið handteknir og svo í East Ham, í austurhluta London, þar sem a.m.k. tveir hafa verið handteknir í tengslum við rannsóknina.
Margir nágrannar þeirra sem handteknir hafa verið í Barking segjast kannast við menn á myndum sem víða hafa verið birtar í dag og hafa margir sagt í áfalli yfir að þeir kunni að hafa búið í næsta nágrenni við árásarmennina.