Tónlistarmaðurinn Bob Dylan hefur nú uppfyllt einu kröfuna sem fylgdi Nóbelsverðlaununum sem hann hlaut á síðasta ári. Hann hefur sent Nóbelsnefndinni fyrirlestur og mun í kjölfarið fá senda verðlaunaupphæðina átta milljónir sænskra króna, eða rúmar 90 milljónir íslenskra króna.
„Ræða hans er óvenjuleg og eins og við er að búast vel rituð. Nú þegar búið er að afhenda fyrirlesturinn þá er Dylan-ævintýrinu að ljúka,“ skrifaði Sara Danius ritari nefndarinnar í bloggfærslu.
Ræðunni fylgir tengill á hljóðskrá þar sem Dylan flytur fyrirlestur sinn, en í honum íhugar hann möguleg tengsl texta sinna og bókmennta.
„Þegar ég fyrst fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum þá fór ég að velta fyrir mér nákvæmlega hvernig lög mín tengdust bókmenntum,“ sagði Dylan.
Hann telur því næst upp listamenn sem reyndust honum innblástur – m.a. Buddy Holly, en Dylan segir tónlist hans hafa breytt lífi sínu og hafa vakið með honum löngun til að semja tónlist þegar hann var unglingur. Hann telur einnig upp klassískar skáldsögur sem höfðu mikil áhrif á hann, m.a. bækur á borð við Moby Dick, Tíðindalaust á Vesturvígstöðvum og Ódysseifskviðu.
Dylan er fyrsti tónlistarmaðurinn sem hlotið hefur bókmenntaverðlaun Nóbels, en meðal þeirra ástæðna sem dómefndin gaf fyrir vali sínu, var að hann hefði „skapað nýja ljóðræna tjáningu innan bandarísku söngvahefðarinnar“.