Breska lögreglan hefur fundið fjölda mikilvægra sönnunargagna í tengslum við rannsókn á hryðjuverkaárásinni í Manchester í síðasta mánuði, í hvítum Nissan Micra bíl sem lagt var hald á í Manchester á föstudag.
Eins og fjallað hefur verið um létust 22 þegar Salman Abedi sprengdi sig í loft upp í lok tónleika bandarísku söngkonunnar Ariana Grande í Manchester Arena-tónleikahöllinni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni geymdi Abedi efni til sprengjugerðarinnar í bílnum og fór ítrekaðar ferðir í hann dagana fyrir árásina.
Þá var maður á fertugsaldri handtekinn á Heathrow flugvelli í London í gær, í tengslum við rannsóknina. Alls eru því sjö menn í haldi bresku lögreglunnar vegna málsins.
Að sögn Russ Jackson, yfirmanns hryðjuverkalögreglunnar í Bretlandi, rannsakar lögregla nú ferðir bílsins dagana 13.-15. maí. Segir hann gríðarlega mikilvægt að komast að því hver notaði bílinn og hvert honum var keyrt.
Áður hafði komið fram að Abedi hefði sjálfur keypt flest allt efnið til sprengjugerðarinnar. Jackson ítrekar að þrátt fyrir það hafi hann að öllum líkindum haft samverkamenn.
Tólf manns sem handteknir voru eftir árásina hefur verið sleppt án kæru. 18 ára gamall frændi Abedis var látinn laus úr haldi á þriðjudag ásamt tveimur öðrum. Þá var Ismail, 23 ára gamall bróðir Abedis, látinn laus á mánudag og tveir frændur hans, 24 ára gamli Isaac Forjani og 21 árs gamli Abz Forjani, látnir lausir í síðustu viku.
Breska lögreglan segir rannsókninni miða vel áfram.